Hjartnæmt súkkulaði

Anna Guðný bloggari á Heilsa og vellíðan á þessa guðdómlegu uppskrift að alvöru súkkulaði sem nærir og gleður!

Gefum henni orðið.

„Ég þurfti að gera þetta hjartnæma súkkulaði mjög oft áður en ég náði loksins að festa það á mynd. Það kláraðist nefnilega alltaf mjög hratt enda er það fáranlega gott. Það hefur vakið mikla lukku og meira að segja á meðal þeirra sem að ég bjóst alls ekki við að finnast það gott. Ég elska að bjóða gestum upp á heimagert súkkulaði og slær það alltaf í gegn. Eins er mjög hjartnæmt að gefa einhverjum sem manni þykir vænt um heimagert súkkulaði í fallegri krukku.

Hvað er hrákakó?

Þegar að ég geri mér súkkulaði eins og þetta er ég farin að nota alltaf hrákakó. En hrákakó og kakó er nefnilega ekki það sama, en á ensku er talað um hrákakó sem cacao og venjulegt kakó sem cocoa. Hrákakó er óristað, það er miklu minna unnið en venjulegt kakó og er þ.a.l. næringarríkara. Það inniheldur mjög hátt magn af andoxunarefnum og magnesíum, enda er það algjör súperfæða. Hrákakóduft er næstum því 4x meira andoxandi heldur en venjulegt dökkt súkkulaði. Auk þess inniheldur það prótein, kalsíum, karótín, þíamín, ríbóflavín, magnesíum og brennistein. Hrákakó getur m.a. haft mjög jákvæð áhrif á hjartað, kólesteról, streitu og bólgur í líkamanum. Það hækkar líka magn ákveðinna taugaboðefna í heilanum eins og t.d seratónín og endorfín sem að hjálpa okkur að líða vel og vera glaðari. Það er auðvelt að glata þessum mögnuðu eiginleikum hrákakósins í framleiðsluferlinu en venjulegt kakó er hitað við mun hærra hitastig en hrákakó og missir það þannig helling af næringarefnum.

Súkkulaði er ekki það sama og súkkulaði

Við höfum svo oft heyrt í fréttum að súkkulaði sé svo gott fyrir heilsuna en eftir að hafa útskýrt muninn á hrákakói og venjulegu kakói þá er súkkulaði væntanlega ekki það sama og súkkulaði. Flest þau súkkulaði sem maður sér út í búð eru mikið unninn, þau innihalda mikinn sykur, jafnvel mjólkurvörur og aukaefni. En með því að gera súkkulaðið sitt sjálfur og nota gæðahráefni þá er maður að fara að nýta þá mögnuðu eiginleika sem að hrákakóið býr yfir. Ef að ég er á ferðinni og hef mikla löngun í súkkulaði kaupi ég mér hrásúkkulaði en þau má aðallega finna í heilsubúðum.“

Hjartnæmt súkkulaði

Súkkulaðið

 • 150 ml kókosolía
 • 50 ml kakósmjör
 • 2 dl hrákakó frá Raw Chocolate Company
 • 75 ml hlynsíróp
 • 1/4 tsk vanilluduft
 • 1/5 tsk gróft salt

Fyllingin

 • Frosin hindber
 • Lífrænt&gróft hnetusmjör frá Whole Earth
 1. Bræddu kókosolíu og kakósmjör.
 2. Hrærðu síðan öllu saman með písk þar til að þetta er orðið vel blandað saman.
 3. Byrjaðu á því að setja frosin hindber í konfekt formið.
 4. Settu svo smá súkkulaði í formið, síðan hnetusmjör og aftur súkkulaði yfir. Hnetusmjörsmagnið fer eftir smekk hvers og eins en ætli ég hafi ekki sett u.þ.b. 1/4-1/2 tsk í hvert form.

Við þökkum Önnu Guðnýju kærlega fyrir þessa flottu uppskrift og allan skemmtilega fróðleikinn!

Allar myndir í færslunni eru eftir Önnu Guðnýju og í hennar eign sem og uppskriftin.