Bjúgur, vökvasöfnun og vatnslosun

Bjúgur er eitthvað sem margir upplifa einhvern tímann á ævinni. Margir kannast við að vakna eins og uppblásin blaðra eftir að hafa borðað saltaðan mat eins og hangikjöt eða saltkjöt. Margar konur fá bjúg á meðgöngu og jafnvel í kring um egglos og blæðingar. Einnig er algengt að fá bjúg á flugferðum. Allt eru þetta dæmi um tilfallandi vökvasöfnun vegna innri eða utanaðkomandi þátta. Þess konar bjúgur er yfirleitt ekki eitthvað til að hafa áhyggjur af og gengur fljótt yfir.

Bjúgur getur líka verið til kominn vegna ýmissa sjúkdóma. Þar má nefna ýmsa hjarta og æðasjúkdóma sem og nýrnasjúkdóma. Bjúgur á meðgöngu getur verið merki um hækkandi blóðþrýsting og er eitt af fyrstu einkennum meðgöngueitrunar og skyldi aldrei hundsa. Einnig lendir eldra fólk og fólk sem er rúmfast eða með skerta hreyfigetu oft í því að fá bjúg. Ef fólk upplifir bjúg oft eða viðvarandi er alltaf rétt að láta kanna ástæður þess og reyna að finna réttar lausnir í samráði við lækni.

Í grunninn gildir alltaf það sama; að borða hreina og góða fæðu, hvílast nóg og stunda reglulega hreyfingu. Þó er ýmislegt hægt að gera til að bæði koma í veg fyrir tilfallandi bjúg og vinna á honum.

Minna salt

  • Of mikið salt getur leitt til vökvasöfnunar í líkamanum. Oft er mikið salt í skyndibita og ýmsum unnum matvælum. Saltað og reykt kjöt, flögur og kex innihalda líka oft mikið salt sem getur ýtt undir bjúgmyndun. Því er best að halda þessum matvælum í lágmarki.

Drekktu nóg af vatni

  • Hljómar kannski furðulega en ef þú drekkur ekki nóg getur líkaminn brugðið á það ráð að binda vatn í líkamanum til að forðast ofþornun. Þetta getur leitt til bjúgmyndunar svo það er mikilvægt, allra hluta vegna, að drekka alltaf nóg af hreinu og góðu vatni.

Fáðu nóg af steinefnum

  • Steinefnajafnvægi er mikilvægt fyrir vökvajafnvægi líkamans. Magnesíum, kalk, kalíum og natríum spila þarna stóra rullu svo við verðum að passa að fá nóg af þeim öllum. Grænmeti, einkum grænt, ávextir, hnetur, fræ og baunir eru sérlega góðar uppsprettur.

Drekktu vatnslosandi jurtate

  • Túnfífilsblöð, klóelfting og netla eru allt jurtir sem hafa vatnslosandi áhrif en gefa þér á sama tíma steinefni. Það er mikilvægt að ofnota ekkert sem er vatnslosandi og passa að fá alltaf til baka þau steinefni sem kunna að tapast.

Hlustaðu á líkamann

  • Sumir taka eftir vökvasöfnun eftir að hafa borðað ákveðna fæðu eins og brauðmeti, mjólkurvörur eða annað. Ef þér finnst einhver fæða valda þér vanlíðan er auðvitað best að sleppa henni eða borða bara stöku sinnum.

Á ferðalögum

  • Taktu með þér freyðitöflur með snefilsteinefnum eins og Nuun. Drekktu á leiðinni og þegar þú kemur á áfangastað. Steinefnin hjálpa þér með vökvajafnvægi og minnka líkur á vökvasöfnun. Mundu líka að standa stundum upp og fá smá hreyfingu á blóðið. Sérstaklega í löngum flugum.

Barnshafandi?

  • Ef þú færð bjúg á meðgöngu þarf alltaf að kanna málið, útiloka alvarlega kvilla eins og háþrýsting eða meðgöngueitrun. Ef allt er í góðu er hægt að nota t.d. netlute eða netlusafa til að losa um bjúginn. Netlan er mild og nærandi jurt sem er öruggt að nota á meðgöngu.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.