Háþrýstingur

Blóðþrýstingurinn er skráður með tveimur gildum. Ef blóðþrýstingurinn er 120 yfir 80 er hann táknaður með 120/80. Fyrri talan er slagbilsþrýstingur – efri mörk- (systóla). Það er þrýstingurinn sem er í slagæðunum þegar hjartað dælir blóðinu út. Seinni talan er lagbilsþrýstingur -neðri mörk- (diastola). Það er þrýstingurinn í slagæðunum þegar hjartað slakar á milli tveggja slaga og fyllist blóði. Ef blóðþrýstingurinn mælist hærri en 140/90 í hvíld er rætt um háþrýsting.

Einkenni: Þeir sem haldnir eru þessum sjúkdómi gera sér sjaldnast grein fyrir því, um helmingur þeirra hafa yfirleitt engin einkenni. Háþrýstingur er því stundum nefndur „hinn þögli dauði“, en hann er ásamt reykingum og of háu kólesteróli ein helsta orsök æðakölkunar. Einkenni sem geta átt rætur að rekja til sjúkdómsins orsakast tíðum af truflunum í annarri starfsemi líkamans og geta m.a. verið sljóleiki, höfuðverkur, taugaóstyrkur, krampar, hjartatruflanir, þreyta og nýrnatruflanir, svo nokkuð sé nefnt.

Orsakir: Í flestum tilfellum eru orsakir háþrýstings óþekktar. Talið er að þær séu blanda af erfðaþáttum og umverfisþáttum. Þó að lífshættir og streita hafi áhrif, skiptir mataræði öllu meira máli. Segja má að þetta sé einn af svokölluðum „menningarsjúkdómum“. Hjá fólki á afskekktari svæðum jarðar, þar sem fæða og lífshættir eru með frumstæðara sniði en hjá okkur, er þessi sjúkdómur óþekktur. Flytji fólk hins vegar af þessum svæðum og samlagast lífsháttum okkar, er því jafn hætt við sjúkdómnum og okkur. Rannsóknir sýna að offita veldur háþrýstingi. Minnkuð líkamsþyngd háþrýstisjúklinga lækkar blóðþrýstinginn.

Lífsstíll er afgerandi þáttur. Kaffi, áfengi, reykingar og skortur á hreyfingu geta t. d. haft neikvæð áhrif. Allstór rannsókn (6.321 fullorðinn) sýndi litla en marktæka hækkun blóðþrýstings, þegar þeir sem drukku 5 eða fleiri kaffibolla á dag voru bornir saman við þá sem ekkert kaffi drukku. Lítið er um langtíma rannsóknir á sambandi kaffineyslu og háþrýstings, en skammtíma rannsóknir benda jafnan til aukins þrýstings, sem lagast þó á nokkrum dögum sé kaffineyslu hætt. Áfengi, jafnvel í litlu magni hækkar þrýstinginn. Langtímaneysla áfengis er afgerandi áhættuþáttur. Reykingar stórauka hættu á háþrýstingi. Nikótín orsakar ferli í líkamanum sem hækkar þrýstinginn, en auk þess er hærra magn af blýi og kadmíum í reykingafólki en hjá þeim sem ekki reykja. Báðir þessir þungmálmar tengjast dánartíðni af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.

Ráð

Almennt: Þar sem offita er alvarlegur sjúkdómsvaldur, ættu þeir sem eru of þungir að byrja á að létta sig. Streita getur verið áhættuþáttur. Slökun í einhverju formi lækkar háþrýsting. Hreyfing er einkar æskileg, því hún dregur bæði úr streitu og háþrýstingi. Hana má fá með markvissum æfingum, reglulegum göngutúrum eða skokki, dansi, sundi eða einhverri líkamlegri íþróttaástundun.

Mataræði: Varðandi mataræði eru nokkrir þættir sem þarf að gæta að. Flest bendir til að salt (natríum klóríð) sé óæskilegt og er helsta ráð lækna hvað mataræði snertir, að draga úr saltneyslu. Í raun er þó ekki nóg að minnka natríumneysluna, auka þarf neyslu kalíums sem myndar mótvægi við natríum í líkamanum. Kalíumríkar fæðutegundir eru t.d. bananar, appelsínusafi, kartöflur, avókadó, smjörbaunir, ferskjur, tómatar og fjölmargar fisktegundir svo sem lúða, lax og þorskur. Í stað venjulegs salts má nota kalíumauðug saltlíki eins og íslenska Eðalsaltið frá Sjóefnum eða Seltin. Einnig er mjög gott að bragðbæta matinn með kryddjurtum á kostnað saltsins og má t.d. benda á Herbamare kryddsalt sem er blanda af hafssalti, kalíumklóríð og lífrænt ræktuðum kryddjurtum.

Skortur á trefjum er afgerandi þáttur í mörgum „menningarsjúkdómum“. Trefjarík fæða hefur gefið góða raun gegn mörgum hjarta- og æðasjúkdómum, þar á meðal háþrýstingi. Því ætti að auka neyslu hennar, en trefjaríkar fæðutegundir eru m.a. klíð, gróft morgunkorn, hýðishrísgrjón, fjöldi grænmetistegunda, hörfræ og
einhverjar bestu og áhrifaríkustu trefjarnar eru í hýði psyllíum fræa. Draga ætti úr neyslu sykurs, þar sem hann getur verið meðvirkandi áhættuþáttur. Sykur er ekki bara í kökum, sætindum og gosdrykkjum, heldur er honum bætt í stóran hluta af tilbúnum matvælum sem við notum kannski daglega án þess að átta okkur á hvað í þeim er.

Bætiefni:

Hvítlaukur. Þó að flestar nýlegar rannsóknir hafi beinst að notkun hvítlauks gegn of hárri blóðfitu, en allnokkrar
rannsóknir staðfesta einnig gagnsemi hans gegn háþrýstingi.1,2

Q-10. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar með Q-10 gegn háþrýstingi. Í 8 vikna tvíblindri rannsókn á hópi manna sem þegar voru á háþrýstingslyfjum, lækkaði blóðþrýstingurinn 9% meira en hjá þeim sem fengu aðeins háþrýstingslyfin og lyfleysu í stað Q-10.3,4 Nefna má að besta Q-10 bætiefnið sem hér fæst er frá bandaríska lyfja- og bætiefnaframleiðandanum Tishcon og heitir Q-Gel. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur veitt heimild fyrir þeirri heilsufarsábendingu á Q-Gel að það fyrirbyggi hjartasjúkdóma (orphan drug designation).

Lýsi inniheldur omega-3 fitusýrurnar EPA og DHA. Rannsóknir benda til að þessar omega-3 fitusýrur gagnist við háþrýstingi.5,6 Þær eru einnig ráðlagðar við öðrum hjarta- og blóðrásarsjúkdómum.

Steinefni. Kalk, magnesíum og þó sér í lagi kalíum (eins og fyrr er getið) eru mikilvæg steinefni til að halda
blóðþrýstingnum í jafnvægi. Þeir sem hafa alvarlega hjarta- eða nýrnasjúkdóma ættu alltaf að ráðfæra sig við lækni áður en þeir taka bætiefni, ekki síst steinefni.7,8

Heimildir:

 1. Silagy CA, Neil HA. A meta-analysis of the effect of garlic on blood pressure. J Hypertens. 1994;12:463-468.
 2. Auer W, Eiber A, Hertkorn E, et al.
  Hypertension and hyperlipidaemia: garlic helps in mild cases. Br J Clin
  Pract Suppl. 1990;69:3-6.
 3. Singh RB, Niaz MA, Rastogi SS, et al.
  Effect of hydrosoluble coenzyme Q10 on blood pressures and insulin
  resistance in hypertensive patients with coronary artery disease. J Hum
  Hypertens. 1999;13:203-208.
 4. Langsjoen P, Langsjoen P, Willis R, et al.
  Treatment of essential hypertension with coenzyme Q10. Mol Aspects Med.
  1994;15(suppl):S265-S272.
 5. Lungershausen YK, Abbey M, Nestel PJ, et
  al. Reduction of blood pressure and plasma triglycerides by omega-3
  fatty acids in treated hypertensives. J Hypertens. 1994;12:1041-1045.
 6. Radack K, Deck C, Huster G. The effects of
  low doses of n-3 fatty acid supplementation on blood pressure in
  hypertensive subjects. A randomized controlled trial. Arch Intern Med.
  1991;151:1173-1180.
 7. Witteman JC, Grobbee DE, Derkx FH, et al.
  Reduction of blood pressure with oral magnesium supplementation in
  women with mild to moderate hypertension. Am J Clin Nutr.
  1994;60:129-135.
 8. Whelton PK, He J, Cutler JA, et al. Effects
  of oral potassium on blood pressure. Meta-analysis of randomized
  controlled clinical trials. JAMA. 1997;277:1624-1632.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.