Sykursýki

Blóðsykursvandamál hafa aukist til muna á undanförnum árum. Við borðum meiri sykur og erum undir stöðugt meira álagi, en það eru tveir veigamiklir þættir í röskun á blóðsykri. Við efnaskipti og meltingu fæðunnar er henni m.a. breytt í glúkósa (þrúgusykur). Hann er fluttur með blóðinu og umbreytist í orku í frumum líkamans. Þar af leiðandi hækkar blóðsykurinn þegar við borðum. Sykrur sem breytast hratt í glúkósa (einföld kolvetni eins og hvítur sykur og þrúgusykur) hækka því blóðsykurinn mjög hratt. Þess vegna eru þessar sykrur settar í orkudrykki og töfluform til að veita skyndiorku.

Flókin kolvetni eða fjölsykrur (grófmeti) þarf líkaminn fyrst að breyta í sykur áður en hann getur nýtt þau sem orku og hækkar því blóðsykurinn mun hægar. Ómeltanleg kolvetni (trefjar) hafa langmestu jafnvægisáhrif á blóðsykurinn. Af öllum þeim fitutegundum sem til eru hefur mettuð fita mestu áhrif á hækkun blóðsykurs. Próteín hafa minnst áhrif á blóðsykur.

Hár og lágur blóðsykur

Blóðsykurinn segir til um magn glúkósa í blóðinu sem verður alltaf að vera í jafnvægi. Frumur líkamans sækja í sykurinn þegar þörf er á og nota hann sem eldsneyti til orkumyndunar. Þegar blóðsykurinn verður of hár getur það valdið yfirliði en það er þekkt einkenni hjá sykursjúkum með ófullnægjandi insúlínframleiðslu. Insúlínið er við eðlilegar aðstæður framleitt í briskirtlinum og veldur því að blóðsykur lækkar. Það stjórnar einnig umbreytingu kolvetna, fitu og próteína í blóðsykur. Of lágur blóðsykur getur einnig valdið yfirliði, jafnframt þreytu og máttleysi.

Sveiflur

Upptaka glúkósa úr blóðinu ræðst af því hversu mikil orkuþörfin er. Sé þörf á mikilli orku lækkar blóðsykurinn hraðar. Þar getur streita einnig haft áhrif. Þegar við verðum fyrir mikilli spennu býr líkaminn til adrenalín; glúkósi leysist úr lifrinni og blóðsykur hækkar. Ef við nýtum ekki þetta adrenalín (t.d. þegar setið er fyrir framan spennandi fótboltaleik í sjónvarpinu) bregst líkaminn þannig við að hann fer að búa til andstreituhormón til að lækka blóðsykurinn aftur. Afleiðingin er sú að blóðsykurinn lækkar of hratt og of mikið og við verðum þreytt. Þá eigum við það til að sækja í gosdrykki og sætindi eða kartöfluflögur til að hressa okkur við en með því hækkum við blóðsykurinn aftur of hratt. Það sama gerist þegar sótt er í kaffi eða aðra örvandi drykki, t.d. þegar mikið er að gera í vinnunni.

Matarræði

Trefjar teljast til ómeltanlegra kolvetna og hafa því einstaklega góð áhrif á jafnvægi blóðsykurs. Margir Íslendingar borða of lítið af trefjum og þá sérstaklega börn. Þessu er hægt að bæta úr með því að borða grófmeti, hýðishrísgrjón, heilhveitipasta, auk þess að borða minni sykur og fitusnauðari fæðu. Grænmeti, baunir og ávextir eru líka trefjaríkar fæðutegundir og þarf varla að ítreka hollustugildi þeirra. Koffíns og nikótíns skyldi neyta í hófi og sé vandamálið mikið ætti að sleppa þessum efnum alveg.

Bætiefni

Sink er ómissandi fyrir heilbrigða starfsemi briskirtils og er mikilvægt uppbyggingarefni insúlíns. Skortur á sinki getur því leitt til minni framleiðslu á insúlíni. Margar vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á áhrif sinks á blóðsykur.

Króm er hluti af efni (GTF) sem gerir frumur líkamans næmari fyrir insúlíni. Nægilegt króm getur bætt insúlínvirkni og hjálpað til við hvort sem er of háan eða of lágan blóðsykur. Auk þess gegnir króm mikilvægu hlutverki í virkni skjaldkirtils, en hann sér meðal annars um að stjórna efnaskiptum líkamans. Króm er nauðsynlegt fyrir bruna á mettaðri fitu og aðstoðar við umbreytingu glúkósa í glycogen, en á því formi geymir líkaminn glúkósa þar til þörf er á honum (þegar adrenalínið  kallar). Einnig hjálpar króm við vinnslu ýmissa hormóna í heilanum sem stjórna matarlyst og minnka löngun í sykur. Fjögurra mánaða rannsókn á 180 sykursjúklingum (týpu 2) bar saman daglega notkun á 1000 µg, 200 µg og lyfleysu. Blóðsykurgildin bötnuðu eftir 2 mánuði hjá þeim sem fengu 1000 µg og eftir 4 mánuði í báðum króm hópunum.1 Aðrar rannsóknir sýna svipaðan árangur.2,3 Ekki ætti að taka stærri skammta af krómi en 600 µg, nema í samráði við
lækni.

Sérstaklega er mælt með að taka þessi tvö bætiefni á pikolinat formi þar sem líkaminn á auðveldara með að nýta það. Í gula miðanum er bæði þessi bætiefni að finna á pikolinat formi.  ALA (Alpha Lipoic Acid) er fitusýra sem inniheldur brennstein. Þetta efni fyrirfinnst í hverri frumu líkamans, þar sem það gegnir því mikilvæga hlutverki að aðstoða við myndun orku sem heldur okkur lifandi og starfandi. Í Þýskalandi hefur ALA verið notað til að meðhöndla taugakvilla sem fylgja sykursýki, en sykursýki getur valdið skaða á taugum sem leiða til útlima. Vert er þó að hafa í huga að í rannsóknum sem staðfestu virkni ALA var því sprautað í sjúklingana. Hins vegar hefur verið staðfest með rannsóknum að ALA virkar vel á skyldan sjúkdóm sem fylgir sykursýki, en það eru taugakvillar í taugakerfinu sem stýrir innri líffærum.4 Rannsóknir benda einnig til að
ALA gagnist við öðrum fylgikvillum sykursýki, þar á meðal lélegu blóðstreymi í litlum æðum, við efnaskipti sykurs og próteína og viðbrögðum líkamans við insúlíni.5,6,7,8,9 Þýsk samanburðarrannsókn á 73 sykursýkissjúklingum með taugakvilla sem truflaði hjartað, leiddi í ljós að daglegur 800 mg skammtur af ALA bætti ástand þeirra án aukaverkana, á meðan samanburðarhópurinn (sem fékk lyfleysu) fékk engan bata.10

Fenugreek (Trigonella foenum-graecum) inniheldur m.a. kólín og lesitín. Fyrir utan að hafa lækkandi áhrif á
kólesteról og verndandi eiginleika á slímhúðir jafnar það líka blóðsykur. Í samanburðarranssókn þar sem sykursjúklingum var gefið fenugreek lækkaði glúkósamagn (þrúgusykur) um 30 % og glúkósaþol jókst.11

Heimildir:

1. Anderson RA, Cheng N, Bryden NA, et al. Elevated intakes of supplemental chromium improve glucose and insulin variables in individuals with type 2 diabetes. Diabetes. 1997;46:1786-1791.

2. Wilson BE, Gondy A. Effects of chromium supplementation on fasting insulin levels and lipid parameters in
healthy, non-obese young subjects. Diabetes Res Clin Pract. 1995;28:179-184.

3. Anderson RA, Polansky MM, Bryden NA, et al. Chromium supplementation of human subjects: effects on glucose, insulin and lipid variables. Metabolism. 1983;32:894-899.

4. Ziegler D, Gries FA. Alpha-lipoic acid in the treatment of diabetic peripheral and cardiac autonomic neuropathy. Diabetes. 1997;46(suppl 2):S62-S66.

5. Jacob S, Henriksen EJ, Schiemann AL, et al. Enhancement of glucose disposal in patients with type 2 diabetes by alpha-lipoic acid. Arzneimittelforschung. 1995;45:872-874.

6. Kawabata T, Packer L. Alpha-lipoate can protect against glycation of serum albumin, but not low density lipoprotein. Biochem Biophys Res Commun. 1994;203:99-104.

7. Nagamatsu M, Nickander KK, Schmelzer JD, et al. Lipoic acid improves nerve blood flow, reduces oxidative stress, and improves distal nerve conduction in experimental diabetic neuropathy. Diabetes Care. 1995;18:1160-1167.

8. Suzuki YJ, Tsuchiya M, Packer L. Lipoate prevents glucose-induced protein modifications. Free Radic Res Commun. 1992;17:211-217.

9. Jacob S, Ruus P, Hermann R, et al. Oral administration of RAC-alpha-lipoic acid modulates insulin sensitivity in patients with type-2 diabetes mellitus: a placebo-controlled pilot trial. Free Radic Biol Med. 1999;27:309-314.

10. Ziegler D, Gries FA. Alpha-lipoic acid in the treatment of diabetic peripheral and cardiac autonomic neuropathy. Diabetes. 1997;46(suppl 2):S62-S66.

11. Sharma, R.D. et al. (1990) Effect of Fenugreek seeds on blood glucose and serum lipids in Type I diabetes. Eur. J. Clin. Nutr. 44:301-306.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.