Blóðnasir

Blóðnasir

Í nefinu er aragrúi af örfínum háræðum sem sjá um að hita og rakametta loftið sem við öndum að okkur. Þær eru afar viðkvæmar og skaddast auðveldlega. Það getur verið nóg að snýta sér of kröftuglega eða að loftþrýstingur breytist snögglega. Sé einhverju stungið upp í nefið (t.d. fingrum) geta háræðarnar rifnað og verði nefið fyrir höggi eru verulegar líkur á blóðnösum. Mikill þurrkur í nefi getur valdið því að slímhimnurnar skorpna og springa og getur þá farið að blæða. Sumir fá þar af leiðandi oftar blóðnasir á veturna þegar hús eru kynt af fullum krafti því upphitað loft er yfirleitt mjög þurrt.

Á fræðimáli kallast blóðnasir „epistaxis“ og af þeim eru tvö afbrygði, fremri og aftari. Aftari blæðing gerist aftast í nefinu og lekur blóðið þá yfirleitt beint niður í kok óháð því hvort viðkomandi liggur eða er uppréttur. Þetta hendir oftar eldra fólk og fólk með of háan blóðþrýsting. Blóðið er gjarnan dökkt að lit þó það geti líka verið skærrautt. Verði blæðingin mjög mikil getur farið að blæða út um nefið líka.

Fremri blæðingar eru mun algengari og eru hinar dæmigerðu blóðnasir. Þær eru oftast vegna (utanaðkomandi) áreitis á slímhúð nefsins og lekur þá skærrautt blóð framarlega úr nefinu. Þessi gerð blóðnasa getur gert fólk óttaslegið því oft virðist sem gríðarlegt magn af blóði streymi út úr nefinu en í raun er það tiltölulega lítið. Við fremri blóðnasir blæðir meira ef viðkomandi er uppréttur og minnkar yfirleitt þegar lagst er niður.

Mun algengara er að börn fái blóðnasir en fullorðnir. Megin ástæðan fyrir því er sennilega sú að börn hafa tilhneigingu til að stinga hlutum upp í nefið eða fikta í því. Eins leika börn sér ósjaldan afar fjörlega og er því oft stutt í óhöppin. Einnig er slímhúðin í börnum mun þynnri en hjá fullorðnum og skaddast þess vegna við minni áverka. Þungaðar konur eru einnig líklegri til að fá blóðnasir þar sem hið aukna estrógenmagn í líkamanum eykur blóðflæði til slímhúðar í nefinu. Við það þrútnar slímhúðin sem myndar þrýsting á háræðarnar og getur valdið blóðnösum.

Í einstaka tilfellum geta blóðnasir verið afleiðing af undirliggjandi sjúkdómi. Sjúkdómar sem vitað er til að geti valdið blóðnösum eru: hjarta- og æðasjúkdómar, hár blóðþrýstingur, malaría, skarlatsótt, ennis- og kinnholubólgur og vissar salmónellusýkingar. Aðrir sjúkdómar sem valda því að viðkomandi hefur meiri tilhneigingu til að fá blóðnasir eru dreyrasýki (skortur á storknunarefni í blóði), hvítblæði, blóðflöguskortur og lifrarsjúkdómar. Þá eru blóðnasir algengar meðal áfengissjúklinga þar sem áfengi þynnir blóðið. Eituráhrif áfengis á lifrina og beinmerginn getur truflað blóðstorknun sem er nauðsynleg til að stoppa blæðingar. Ýmis blóðþynningarlyf geta einnig aukið líkur á blóðnösum.

Hvað er til ráða?

 • Til að stoppa fremri (hinar dæmigerðu) blóðnasir skal gera eftirfarandi:Snýta sér varlega til að losa um mögulega blóðkekki.
 • Sitja upprétt(ur) og halla sér fram.
 • Klípa nefið saman (ekki of fast) með fingrunum í nokkrar mínútur.
 • Leggja klakapoka eða kaldan klút á nef, enni og vanga til að draga æðarnar saman og minnka þannig þrýstinginn. Þetta má gera á meðan nefinu er haldið lokuðu.
  Ef blæðingin er ekki þeim mun meiri má leggjast aftur þar til hún hefur stoppað að fullu. Forðast ætti líkamlegt erfiði í nokkra klukkutíma.
 • Reynið að komast hjá því að snýta úr nefinu í um 12 tíma eftir að blæðing hættir. Storknaðir blóðkögglar gætu losnað og komið öllu af stað aftur.
 • Til að flýta fyrir bata slímhúðar í nefinu má bera E-vítamín olíu varlega í nefið með fingrunum.
 • Einnig er hægt að láta olíuna í lítinn bómullarhnoðra og setja í nefið í stutta stund.
 • Hnerrið með munninn opinn til að draga úr álaginu á nefið.
 • Viðhaldið góðum raka í nefinu, sérstaklega á veturna. Sum nefsprey fyrir ennis- og kinnholubólgur og/eða ofnæmi geta þurrkað slímhúðina og ætti að nota þau sparlega. Saltvatnslausn eða einfaldlega hreinu, volgu vatni er gott að spreyja reglulega í nefið til að gefa því raka. Sé unnið í mjög þurru lofti er skynsamlegt að koma fyrir rakatæki á vinnustaðnum.

Bætiefni

Rútín er bíóflavonóíð sem styrkir háræðarnar.

K-vítamín er afar nauðsynlegt fyrir eðlilega blóðstorknun. Það er helst að finna í dökklaufguðu grænmeti, káli og alfalfa, en alfalfa fæst í m.a. í töflum.

Sé um blóðleysi að ræða er mælt með að taka inn náttúrulegt járn. Í Heilsuhúsinu fæst járn sem fer ekki illa í maga, bæði í töflum og fljótandi formi.

Ef grunur leikur á að um aftari blæðingu sé að ræða er mælt með að hafa samband við lækni.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.