Bíóflavonóíðar

Bíóflavonóíðar eru hópur vatnsleysanlegra efna sem finnast í plöntum og grænmeti. Þó svo líkaminn geti ekki framleitt bíóflavonóíða eru þeir ekki taldir til lífsnauðsynlegra bætiefna. Margar mismunandi gerðir eru til af bíóflavonóíðum s.s. hesperidín, eríódiktýól, ísóflavón, kversetín og rútín en hin tvö síðastnefndu eru sennilega þekktust.

Kversetín er að finna í lauki og bláþörungum. Það fyrirbyggir t.d. að góða kólesterólið (HDL) breytist í vont (LDL), en eins og flestir vita er LDL kólesteról einn helsti áhættuþáttur í myndun hjarta- og æðasjúkdóma. Kversetín er því vopn í baráttunni gegn þessum sjúkdómum og kemur beint úr náttúrunni. Það er jafnvel talið geta átt þátt í vörnum gegn heilablæðingum, sem og fyrirbyggt og jafnvel unnið á astmaeinkennum.

Rútín er unnið úr sítrusávöxtum og berjum. Það styrkir háræðarnar en það eru minnstu æðarnar í æðakerfinu. Á þeim er oft mikið álag, ekki síst hjá þeim sem þurfa mikið að vera í kyrrstöðu. Ef álagið verður of mikið, getur myndast svokallað háræðaslit, en rútín er eitt fárra efna sem getur dregið úr og jafnvel lagað þess háttar slit.

Ísóflavonóíðar úr sojabaunum hafa vakið athygli vísindamanna. Vitað er að þeir hafa efnafræðibyggingu sem svipar til kvenhormóna og eru þeir taldir geta unnið á einkennum ýmissa fylgikvilla breytingarskeiðsins eins og hitakófum.

Bíóflavonóíðar eru einnig mikið notaðir í meðferðum á íþróttameiðslum þar sem þeir geta dregið úr verkjum, bólgum og marblettum og á það sérstaklega við um rútín. Verkir í baki og fótleggjum hafa verið meðhöndlaðir með bíóflavonóíðum. Einnig hafa þeir hjálpað mörgum við að draga úr einkennum jafn ólíkra kvilla og þrálátra blæðinga og kalkskorti í blóði. Bíóflavonóíðar hafa að auki ýmis önnur áhrif í líkamanum svo sem að efla blóðstreymi og gallframleiðslu og jafnframt geta þeir unnið á örverum.

Þegar C-vítamín er notað er æskilegt að taka C-vítamín með bíóflavonóíðum, því þessi bætiefni auka virkni hvors annars og er sérskaklega mælt með þessari blöndu fyrir fólk sem fær frunsur eða er með háræðavandamál.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.