Fólínsýra

Fólínsýra er vatnsleysanlegt vítamín sem flokkað er í hóp B-vítamína og er einnig þekkt undir heitinu fólasín. Fólínsýra er raunverulega hópur efnasambanda og er nafnið dregið af latneska orðinu „folium“ sem merkir lauf. Fólínsýra er nauðsynleg fyrir alla frumuskiptingu, til myndunar DNA og RNA jafnframt því sem hún gegnir mikilvægu hlutverki við myndun rauðra og hvítra blóðkorna, slímhúðar og annarra fruma sem skipta sér ört. Mikilvæg fyrir heilbrigt bataferli.

Fæðutegundir sem eru auðugar af fólínsýru eru m. a. ölger, grænmeti, einkum grænt svo sem spergilkál, spínat og annað grænt lauf, fiskur, kjöt, baunir, hnetur, egg og innmatur. Fólínsýra þolir illa hita og skemmist við suðu, einnig er hún viðkvæm fyrir ljósi. Áfengi og ýmis lyf svo sem pillan og algeng verkja- og sýklalyf eru gagnvirk fólínsýru.

Skortur á fólínsýru er útbreiddasti vítamínskortur á byggðu bóli, einkum meðal fátækra þjóða. Skortur dregur úr eðlilegum vexti og getur valdið blóðskorti og öðrum truflunum á starfsemi blóðs, einnig truflunum á starfsemi meltingarfæra, jafnframt höfuðverk og sljóleika. Streita getur verið meðvirkandi orsakavaldur skorts. Þungaðar konur ættu ávallt að ganga úr skugga um að þær fái nægilegt magn af fólínsýru, þ.e. daglega 400 mcg, því skortur á fólínsýru getur valdið galla í taugakerfi fósturs.

Nýleg rannsókn við Georgíuháskóla í Bandaríkjunum (U.S. Centers for Disease Control and Prevention) bendir til að samband geti verið á milli minnkandi heyrnar og skorts á fólínsýru og vítamíni B-12. Konur (á milli 60 og 71 árs aldurs) með heyrnartap skorti fólínsýru og B-12. Þeir sem stóðu að rannsókninni prófuðu 55 konur, m.a. var heyrnin prófuð og magn vítamína í blóði. Athyglisvert var að meðal kvenna með heyrnartap höfðu 38% of lítið af B-12 of 25% of lítið af fólínsýru. Vísindamenn telja að skortur þessara bætiefna geti skaðað starfsemi tauga og blóðstreymi í eyrum og umhverfis þau.1

1. Denise K. Houston, et al. „Age-Related Hearing Loss, Vitamin B-12 and Folate in Elderly Women.“ Amercan Journl of Clinical Nutrition, Vol 69, March 1999, pp. 564-571.

Ráðlagðir dagsskammtar eru mældir í míkrógrömmum (mcg):

 • ungbörn að hálfs árs aldri: 35 mcg
 • 6-12 mánaða: 50 mcg
 • 1-3 ára: 75 mcg
 • 4-6 ára: 100 mcg
 • 7-10 ára: 150 mcg
 • karlar 11-14 ára: 240 mcg
 • karlar 15 ára og eldri: 300 mcg
 • konur 11-14 ára: 240 mcg
 • konur 15 ára og eldri: 300 mcg
 • konur á meðgöngu: 400 mcg
 • konur með barn á brjósti: 400 mcg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.