Bíótín

Bíótín, sem er einnig þekkt undir öðrum nöfnum svo sem H-vítamín, kóensím-R og bios er vatnsleysanlegt. Við fáum það úr fæðunni, auk þess sem það myndast í þörmunum þegar gerlagróður meltingafæranna er heilbrigður. Bíótín hjálpar til við ýmis ferli í líkamanum svo sem efnaskipti fitu, amínósýra og kolvetna.

Bíótínauðugar fæðutegundir eru m. a. nýru, lifur, sojabaunir, sveppir, bananar, haframjöl, ávextir, ölger, eggjarauður, mjólk og hýðishrísgrjón. Bíótín vinnur með B2, B6, B3 og A-vítamíni og er því yfirleitt tekið inn í fjölvítamín- og blönduðum B-vítamíntöflum. Súlfalyf, estrógen, áfengi, suða, og mikil neysla hrárrar eggjahvítu draga úr frásogi bíótíns.

Skortur á bíótíni er ekki algengur, því það er algengt fæðu auk þess að myndast í meltingafærum. Skortseinkenni koma fram í hárlosi, flösu, húðexemi, óreglulegri starfsemi fitukirtla, geðdeyfð, vöðvaverkjum, þreytu og lystarleysi. Stöðug neysla þess er mikilvæg þar sem það er vatnsleysanlegt og safnast þar af leiðandi ekki upp í líkamanum. Það hefur jákvæð áhrif á heilbrigði hárs og hárvöxt og getur gagnast við hárlosi og exemi.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að hálfsárs aldri: 10 mcg
  • 6-12 mánaða: 15 mcg
  • 1-3 ára: 20 mcg
  • 4-6 ára: 25 mcg
  • 7-10 ára: 30 mcg
  • 11-14 ára: 30-100 mcg
  • 14 ára og eldri: 30-100 mcg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.