B-15 vítamín / pangamínsýra

Pangamínsýra er einnig þekkt undir nafninu vítamín B-15, þótt deildar meiningar séu um hvort hægt sé að skilgreina hana sem vítamín enda hefur hún ekki fengið viðurkenningu sem slík. Hún er vatnsleysanleg og samvirk með A- og E-vítamíni. Rannsóknir sem gerðar voru á efnasambandinu í Sovétríkjunum sálugu, þykja mörgum vestrænum vísindamönnum ekki trúverðugar. Ástæðuna segja þeir meðal annars ófullnægjandi upplýsingar og óvönduð vinnubrögð við úrvinnslu gagna. Í þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið utan Sovétríkjanna hefur ekki tekist að færa sönnur á næringar- eða læknisfræðilegt gildi pangamínsýru. Fræðimenn virðast skiptast í tvo hópa varðandi pangamínsýru, annað hvort hafa þeir enga trú á gildi hennar hvorki sem vítamíni né til lækninga, eða tröllatrú.

Rússneskir læknar nota pangamínsýru mikið til lækninga. Þeir telja hana örva ónæmiskerfið, bæla langanir í alkóhól, verja lifrina gegn skorpnun, koma að efnaskiptum fitu og vera áhrifaríka við að halda kólesterólmagni í blóði í skefjum. Kransæðasjúkdómar, hjartakveisa, lungnaþemba, astmi, gikt, taugabólga og gláka eru sjúkdómar sem rússneskir læknar ráðleggja pangamínsýru við. Einnig halda þeir því fram að pangamínsýra hafi jákvæð áhrif á líftíma frumna, verndandi áhrif á líkamann gegn mengun, að hún auki úthald, komi að haldi hjá áfengissjúklingum, hjartasjúkum og öldruðum. Í Autism Research Review International er áhugaverð umfjöllun um jákvæð áhrif pangamínsýru á einhverfa einstaklinga, þá sérstaklega tal, athygli, einbeitingu, og áráttuhegðun. Þar kemur meðal annars fram að einhverfir einstaklingar sem ekki töluðu, tóku að tala eftir að hafa verið gefin pangamínsýra í skamman tíma.

 

Fæðutegundir sem eru auðugar af pangamínsýru eru ölger, hýðishrísgrjón, heilkorn, graskersfræ, apríkósukjarnar, hnetur og sesamfræ. Annars má segja að B-15 sé hægt að finna í fæðu sem inniheldur önnur B-vítamín. Vatn og sólskin eru gagnvirk pangamínsýru.

Einkenni skorts eru lítt þekkt, en Rússar telja að m.a. megi rekja minnkað súrefnisstreymi til frumna, hjartasjúkdóma, sem og kirtla- og taugakvilla til skorts á pangamínsýru.

 

Engin dagsskammtur af pangamínsýru er opinberlega ráðlagður. Hinsvegar er hún oft gefin sem bætiefni í 50 mg töflum, ein tafla á dag. Þegar pangamínsýra er gefin til lækniga, er algengur skammtur 50-150 mg á dag.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.