B-1 vítamín / tíamín

Vítamín B-1 eða tíamín, eins og það heitir, er vatnsleysanlegt eins og önnur B-vítamín. Það er nauðsynlegt fyrir heilbrigða starfsemi taugakerfis og efnaskipti kolvetna og jafnframt fyrir starfsemi meltingarfæra og hjarta. Það tekur þátt í mikilvægum efnaskiptum í taugavef og hjarta, einnig við myndun rauðra blóðkorna og efnaskiptum sem tengjast viðhaldi vöðva. Vítamín B-1 er lyktarsterkt og er það m.a. talið hjálpa til við að halda skordýrum í burtu.

Augðugustu uppsprettur B-1 eru ölger, hveitikím, klíð, heilt hveiti, heilir hafrar, hýðishrísgrjón, flest fræ og hnetur, sojabaunir, mjólk og mjólkurafurðir, laufmikið grænmeti, einnig kartöflur og rófur. B-1 skemmist við suðu, einnig vinna koffeín, áfengi og östrógen gegn því.

Einhver þekktustu einkenni tíamínskorts er svonefndur beri-beri sjúkdómur sem truflar starfsemi hjarta og tauga. Skortseinkenni lýsa sér í þreytu, einbeitingarerfiðleikum og lystarleysi, einnig í truflunum á starfsemi hjarta og jafnvel lækkuðum blóðþrýstingi. Aukaverkanir eru afar fátíðar þar sem B-1 er vatnsleysanlegt og umframmagn skilst auðveldlega úr líkamanum, jafnvel þó að mjög stórir skammtar séu notaðir í lengri tíma.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • 0-6 mánaða: 0,3 mg
  • 6-12 mánaða: 0,4 mg
  • 1-3 ára: 0,7 mg
  • 4-6 ára: 0,8 mg
  • 7-10 ára: 1 mg
  • karlar 11 ára og eldri: 1,4 mg
  • konur 11 ára og eldri: 1,1 mg
  • þungaðar konur og konur með börn á brjósti 1,5 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.