B-5 vítamín / pantótensýra

Pantótensýra er einnig þekkt sem B5-vítamín. Hana er víða að finna bæði í jurta- og dýraríkinu eins og nafnið bendir til en það er dregið af gríska orðinu ,,pantos sem merkir alls staðar. Pantótensýra er vatnsleysanleg eins og önnur B-vítamín og er að finna í fæðunni auk þess sem hún getur myndast í þörmum með aðstoð þarmagerla. Pantótensýra tekur þátt í að breyta fitu, kolvetnum, sykri og prótínum í orku. Hún er nauðsynleg til myndunar mótefna, myndun líkamans á D-vítamíni og aðstoðar við fumubyggingu, eðlilegan vöxt og uppbyggingu miðtaugakerfis.

 

Fæðutegundir auðugar af pantótensýru eru m.a. kjöt, nýru, lifur, hjörtu, fiskur, egg, korn, hveitikím, klíð, kartöflur, ávextir og grænt grænmeti svo eitthvað sé nefnt. Hormón og getnaðarvarnartöflur, kaffi, niðursuða, hiti, svefntöflur, áfengi og súlfalyf geta dregið úr frásogi pantótensýru.

Skortur á pantótensýru er óalgengur, því hún er svo víða í fæðunni, auk þess sem hún myndast í meltingarfærum. Einkenni skorts geta þó komið fram sem húð- og blóðkvillar, skeifugarnarsár, blóðsykurskortur, þrálátt slen og þreyta, hárlos, þunglyndi, önuglyndi, svimi, slappleiki í vöðvum, truflun í hjarta og æðakerfi, meltingafæratruflanir, aukin tilhneiging til sýkinga einkum í efri hluta öndunarfæra og vöðvakrampar. Sumir telja skort á pantótensýru vera ein af orsökum asma og ofnæmis.

 

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að hálfsárs aldri: 2 mg
  • 6-12 mánaða: 3 mg
  • börn 1-3 ára: 3 mg
  • 4-6 ára: 3 – 4 mg
  • 7 -10 ára: 4 – 5 mg
  • bæði kyn 10 ára og eldri 4-7 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.