Kólostrum / e: Colostrum

Kólostrum eða broddur, er fyrsti vísir að mjólk sem verður til í mjólkurkirtlum spendýra 24-48 klukkustundir eftir fæðingu afkvæmis. Þessi mjólk inniheldur öll næringarefni sem nýfætt afkvæmið þarfnast, vaxtaraukandi efni, prótín og ensím og varnarefni sem vernda það fyrir hættum utanaðkomandi örvera. Í henni eru önnur næringarefni en í mjólkinni sem síðar myndast en einnig ónæmisstyrkjandi efni svo sem immúnglóbúlín, interferon, interleukin og fleiri. Immúnglóbúlín (Ig) eru eggjahvítuefni sem varna gegn sýkingum í líkamanum með því m.a. að bindast óæskilegum innrásaraðilum, gera þá óvirka og jafnvel eyða þeim algerlega.

Ónæmiskerfið

Kólostrum inniheldur m.a. eggjahvítuefnið PRP sem bæði örvar veikt ónæmiskerfi og róar ofvirkt ónæmiskerfi. Þannig er það kjörið til að koma jafnvægi á ónæmiskerfið og viðhalda því. PRP örvar og jafnar starfsemi hóstakirtils við framleiðslu T-fruma, en þær eru hluti af varnarher líkamans. Önnur efni sem fyrirfinnast í kólostrum stuðla að virku ónæmiskerfi í góðu jafnvægi. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum á fullorðnu fólki að kólostrum styrkir ónæmiskerfi þeirra. Flestir sjúkdómar, jafnt mildir sem alvarlegir, eiga það sammerkt að gera vart við sig og jafnvel blossa upp í kjölfar þess að ónæmiskerfi viðkomandi hefur daprast. Kólostrum hefur þann einstaka eiginleika að auka frumuvöxt og stuðla að bataferli skaddaðra fruma.

Niðurgangur

Í New England J of Med var greint frá rannsókn þar sem immúnóglóbúlín þykkni, unnið úr kólostrum var notað með góðum árangri til að fyrirbyggja niðurgang á ferðalögum á framandi slóðum. Tvíblind rannsókn á börnum með niðurgang sem orsakaðist af rótavírus sýndi hliðstæðan árangur. Kýr sem broddurinn var unnin úr höfðu sjálfar fengið mótefni gegn vírusnum. Niðurgangurinn minnkaði til muna hjá þeim börnum sem fengu broddinn og einnig þurftu þau minna magn af upplausn við uppþornun. Vírusinn hvarf auk þess mun fyrr úr líkamanum en hjá þeim sem fengu lyfleysu (1,5 dagur á móti 2,9).1

Fyrir utan að sýna árangur við niðurgangi vegna rótavíruss2,3 eru einnig vísbendingar um að kólostrum geti unnið á niðurgangi sem verður vegna annarra sýkla s.s. Cryptosporidium parvum, Helicobacter pylori, Escherichia coli og Clostridium difficile.4 Mótefnin í broddinum þurfa reyndar að vera í mjög háum skömmtum til að vinna á þessum sýklum.

Ofnæmi

Sem fyrr segir eru Ig (immúnóglóbúlín) virk efni sem fyrirfinnast í kólostrum. Sé kólostrum notað þegar ofnæmisvaldar herja á líkama viðkvæmra, bindast þessi efni, einkum IgM og IgE, ofnæmisvöldunum og draga úr eða koma í veg fyrir óþægindi af völdum þeirra. Raunar eru fleiri efni í kólostrum sem draga úr sterkum ofnæmisviðbrögðum þegar ofnæmisvakar berast í líkamann.

Íþróttir

Eftir notkun kólostrums hefur íþróttafólk meira þrek við æfingar og er fljótara að ná sér að afloknum æfingum. Þetta var niðurstaða vísindamanna við háskóla Suður-Ástralíu þegar þeir prófuðu efnið á hjólreiðamönnum og knattspyrnumönnum í 8 vikur. Einnig er þetta reynsla íþróttamanna sem reynt hafa kólostrum við stífar æfingar í æfingabúðum.

Heimildir:

 1. Sarker SA, Casswall TH, Mahalanabis D, et al.
  Successful treatment of rotavirus diarrhea in children with
  immunoglobulin from immunized bovine colostrum. Pediatr Infect Dis J
  1998;17:1149-54.
 2. Sarker SA, Casswall TH, Mahalanabis D, et
  al. Successful treatment of rotavirus diarrhea in children with
  immunoglobulin from immunized bovine colostrum. Pediatr Infect Dis J
  1998;17:1149-54.
 3. Mitra AK, Mahalanabis D, Ashraf H, et al.
  Hyperimmune cow colostrum reduces diarrhoea due to rotavirus: a
  double-blind, controlled clinical trial. Acta Paediatr 1995;84:996-1001.
 4. Okhuysen PC, Chappell CL, Crabb J, et al.
  Prophylactic effect of bovine anti-Cryptosporidium hyperimmune
  colostrum immunoglobulin in healthy volunteers challenged with
  Cryptosporidium parvum. Clin Infect Dis 1998;26:1324-9.

Sjá einnig bókina: Colostrum – Erstmilch – regelt die Immunkompetenz natürlich eftir Dr. Jürgen Weihofen og Marc Steiner.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.