Kítosan / e: Chitosan

Kítósan er trefjaefni sem unnið er úr skelfiski. Það sama gildir um þessar trefjar og margar aðrar, að líkaminn meltir þær lítið sem ekkert. Það hefur hins vegar þann eiginleika að á leið sinni í gegnum meltingarfærin getur það bundist fitu sem borðuð hefur verið og losað hana út með hægðum. Vegna þessa eiginleika er það notað bæði til að lækka kólesteról og í baráttunni við aukakílóin. Samkvæmt rannsóknum japanskra vísindamann virðist neysla C-vítamíns með kítósani auka virkni þess til að lækka kólesteról.1

Samkvæmt annarri rannsókn sömu vísindamanna gerir kítósan líkamanum erfitt fyrir að taka upp og nýta sér fitu. Sem fyrr segir bindur kítósanið fituna og fjarlægir hana, fyrirbyggir þannig að líkaminn taki hana upp og bæti henni utan á okkur. Þessi rannsókn bendir því til að það sé góð hjálp í baráttunni við aukakílóin.2 Það hefur verið staðfest með fleiri rannsóknum. T.d. var í einni rannsókn fylgst með 59 „yfirvigtar“ einstaklingum í tvíblindri prófun. Var helmingur þeirra látinn taka 1.500 mg af kítósani fyrir hádegismat og kvöldmat, en hinn helmingur fólksins fékk lyfleysu. Fólkið þurfti ekki að gera neinar breytingar á mataræði sínu. Að 8 vikum liðnum hafði kítósan-hópurinn létst um liðlega 1 kg að jafnaði, en þeir sem fengu lyfleysuna þyngst um 1,5 kg á sama tíma.3 Raunar hafa ekki allar rannsóknir skilað sama góða árangrinum, en í þeim hafa verið notaðir allmiklu minni skammtar af kítósani.

Áhrif kítósans á kólesteról hefur verið rannsakað nokkuð og sýna flestar rannsóknir að neysla kítósans lækki kólesteról, eins t.d. rannsóknin sem frá er greint í tímaritinu Atherosclerosis.4 Rannsókn á fullorðnum karlmönnum í Japan sýndi að 3-6 g af kítósani á dag, hafði eftir 2 vikur lækkað kólesteról um 6% og aukið góða kólesterólið (HDL) um 10%.5

Aukaverkanir

Nauðsynlegt er að vita að langtímaneysla stórra skammta af kítósani fjarlægir ekki bara óæskilega fitu, heldur getur það einnig rænt líkamann fituleysanlegu vítamínunum A, D, E og K. Einnig benda rannsóknir til þess að það geti hugsanlega rænt steinefnum eins og kalki, magnesíum og seleni. Þeir sem því nota stóra skammta af kítósani í lengri tíma, ættu jafnframt að tryggja líkamanum nægilegt magn af ofangreindum bætiefnum. Barnshafandi konur ættu ekki að nota kítósan.

Heimildir:

  1. Kanauchi O, Deuchi K, Imasato Y, et al. Increasing effect of a chitosan and ascorbic acid mixture on fecal dietary fat excretion. Biosci Biotechnol Biochem. 1994;58:1617-1620.
  2. Schiller RN, Barrager E, Schauss AG, et al. A randomized, double-blind, placebo-controlled study examining the effects of a rapidly soluble chitosan dietary supplement on weight loss and body composition in overweight and mildly obese individuals. J Am Nutraceutical Assoc. 2001;4:42-49.
  3. Schiller RN, Barrager E, Schauss AG, et al. A randomized, double-blind, placebo-controlled study examining the effects of a rapidly soluble chitosan dietary supplement on weight loss and body composition in overweight and mildly obese individuals. J Am Nutraceutical Assoc. 2001;4:42-49.
  4. Ormrod D, Holmes CC, Miller TE. Dietary chitosan inhibits hypercholesterolaemia and atherogenesis in the apolipoprotein E-deficient mouse model of atherosclerosis. Atherosclerosis. 1998;138:329-334.
  5. Maezaki Y, Tsuji K, Nakagawa Y, et al. Hypocholesterolemic effect of chitosan in adult males. Biosci Biotech Biochem 1993;57:1439-44

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.