Fosfór

Fosfór er 1% af þyngd líkamans, þar af 80-90% í beinum og tönnum. Fosfór er nauðsynlegur fyrir myndun beina og tanna, frumuvöxt, samdrátt hjartavöðva og heilbrigða nýrnastarfsemi. Fosfór á þátt í heilbrigðri starfsemi tauga og heila. Jafnframt hjálpar hann líkamanum við nýtingu vítamína úr fæðu og umbreytingu fæðunnar í orku. Fosfór, kalk og magnesíum þurfa að vera í réttu hlutfalli, því of mikið eða of lítið af einhverju þeirra hefur slæm áhrif á líkamann. Gosdrykkir með kolsýru innihalda fosfór. Mikil neysla gosdrykkja getur raskað því jafnvægi sem þarf að vera milli fosfórs, kalks og magnesíum.

Fosfór er að finna í kjöti, fiski, eggjum, heilkorni, grænmeti, mjólkurafurðum, þurrkuðum ávöxtum, hnetum, fræi og gosdrykkjum með kolsýru. Sýrubindandi lyf, ál, magnesíum og of mikið af járni eru gagnvirk fosfór.

Skortur á fosfór er fátíður þar sem það er að finna víða í fæðunni. Einkenni skorts eru þreyta, beinverkir, kvíði, minnkuð matarlyst, slappleiki, dofi, skjálfti, beinkröm, einbeitingarleysi, minnkuð kyngeta og ígerð í tannvegi.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að 6 mánaða aldri: 280 mg
  • 6- 12 mánaða: 420 mg
  • börn 1 – 10 ára 600 mg
  • karlar 11-18 ára aldri: 900 mg
  • karlar 19 ára og eldri: 600 mg
  • konur 11-18 ára: 900 mg
  • konur 19 ára og eldri: 600 mg
  • þungaðar konur: 900 mg
  • konur með barn á brjósti: 900 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.