Andoxunarefni / Antioxidants

Þegar epli er skorið verður það brúnt í sárið. Járn ryðgar. Þessu veldur oxun af völdum súrefnis. Við efnaskipti í líkamanum myndast úrgangsefni (svo nefnd sindurefni) sem geta valdið hliðstæðum skemmdum á frumum líkamans. Ótal aðrir þættir eru síðan samverkandi sindurefnunum í þessari eyðileggingu, svo sem reykingar, áfengi, streita, bakteríur, vírusar og umhverfismengun.

Hver fruma líkamans er varin með himnu sem inniheldur m. a. hátt fituhlutfall. Sindurefnin valda því að þessi fita oxar og veikir það frumuna. Rannsóknir benda til að slíkar frumuskemmdir geti skaðað heilsuna.

Líkaminn getur varist þessum skemmdum með svonefndum andoxunarefnum. Það eru ákveðin bætiefni, vítamín og steinefni sem ráðast til atlögu gegn skaðvöldunum (sindurefnunum) og aðstoða líkamann að losa sig við þá. Jafnframt styrkja þessi andoxunarefni frumurnar og um leið varnir líkamans.

Athyglisvert er að læknavísindin hafa í seinni tíð beint athygli sinni í auknum mæli að rannsóknum á þessu sviði. Niðurstöður þeirra rannsókna hafa síðan orðið til þess að sífellt fleiri læknar ráðleggja andoxunarefni til að fyrirbyggja alvarlega sjúkdóma, ekki síst hjarta og æðasjúkdóma, sem eru ein algengasta dánarorsök hérlendis.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.