Amínósýrur

Amínósýrur eru í raun byggingarefni prótína, en hver einasta lífvera er gerð úr prótínum, allt frá hinu stærsta dýri að minnstu örveru. Vöðvar, liðbönd, bandvefur, innyfli, kirtlar, neglur, hár og mikill hluti líkamsvökva, þetta er allt samsett úr prótínum. Eins gegna prótín lykilhlutverki í beinvexti. Prótín hjálpa til við að halda vatnsmagni líkamans í jafnvægi og viðhalda réttu sýrustigi. Þau aðstoða við flutning næringarefna á milli frumuvökva og vefs, blóðs og vessa. Skortur á prótíni getur því ruglað vökvajafnvægi líkamans og valdið bjúgi.

Það eru um 28 amínósýrur sem á mismunandi hátt búa til þau hundruð prótína sem fyrirfinnast í líkamanum. Þær eru ýmist lífsnauðsynlegar (essential) eða ekki (non-essential). Lifrin framleiðir um 80% prósent þeirra amínósýra sem líkaminn þarf (non-essential) en afganginn (essential) þurfum við að fá úr fæðunni. Þær 9 amínósýrur sem líkaminn getur ekki framleitt eru: histidín, ísóleusín, leusín, lýsín, metíónín, fenýlalanín, þreónín, tryptófan og valín. Að hinar amínósýrurnar séu ekki lífsnauðsynlegar þýðir ekki að líkaminn þurfi þær ekki, heldur að líkaminn geti framleitt þær sjálfur.

Önnur heiti sem fylgja amínósýrum eru kvísl-keðja (branched-chain), frjálst form (free form) og forskeytið L- eða D- (latína: levo/dextro = hægri/vinstri). Kvísl-keðja vísar til hóps amínósýra sem nýtast vöðvunum beint og er gjarnan notaðar á sjúkrahúsum til að meðhöndla sjúklinga sem hafa lent í áfalli eða fengið sýkingar. Eins hafa íþróttamenn nýtt sér þessar amínósýrur. Að amínósýrur séu í frjálsu formi vísar til gæða þeirra og táknar að þær séu óblandaðar eða hreinar. Það þýðir að líkaminn þarf ekki fyrst að brjóta þær niður í grunneiningar til að geta nýtt þær heldur getur hann tekið þær upp beint inn í blóðstreymið. Bókstafirnir L- og/eða D- fyrir framan amínósýruheitið segja til um efnafræðilega gerð amínósýrunnar. Flestar amínósýrur, nema glýsín, geta verið af báðum gerðum. Prótín í dýrum og plöntum eru af L-gerð og er sú gerð því talin heppilegust mannslíkamanum.

Vítamín og steinefni nýtast líkamanum ekki nema fullnægjandi magn af amínósýrum sé til staðar. Eins geta mikilvæg taugaboð raskast verði skortur á amínósýrum. Þunglyndi og taugasjúkdómar í eldra fólki hafa verið tengdir við skort á amínósýrum og þá einna helst þeim lífsnauðsynlegu (essential). Ýmsar aðrar ástæður geta verið fyrir skorti á amínósýrum s.s.: skert upptökuhæfni líkamans, sýkingar, áföll, streita, lyfjanotkun og skortur á öðrum næringarefnum.

Þetta þýðir þó ekki að þeim mun meira sem við borðum af prótínum (eða amínósýrum), þeim mun betra. Þvert á móti, of mikið af prótínum eykur óþarflega álag á nýru og lifur sem eru hreinsunarstöðvar líkamans. Í þessu gildir það sama eins og mörgu öðru: gæði umfram magn.

Sé verið að taka inn blöndu sem inniheldur allar lífsnauðsynlegu amínósýrurnar, er best að gera það 30 mín. fyrir eða eftir mat. Sé verið að taka einstaka amínósýrur er best að gera það á morgnana eða á milli mála og þá helst með B-6 og C-vítamíni til að auka upptökuna. Einnig er mælt með að taka samt sem áður allan amínósýruhópinn, en þá ekki á sama tíma. Hins vegar er ekki mælt með að taka inn einstaka amínósýrur í langan tíma til að trufla ekki vinnslu líkamans úr prótínum úr fæðunni. Góð regla er að taka inn ákveðinn skammt í tvo mánuði og hvíla svo næstu tvo. Ekki er mælt með að börn taki amínósýrur nema í samráði við lækni.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.