Túnfífill / e: Dandelion / lat: Taxacum officinate

Túnfífillinn er einn versti óvinur garðeiganda. Hann fjölgar sér hratt og festir rætur eins og límdur væri við jörðina. Fífillinn er þó ekki bara plága því lækningarmáttur hans og notagildi í mat hefur verið þekkt í aldaraðir.

Laufin eru mjög næringarrík og innihalda A, C, D, og B-vítamín sem og járn, magnesíum, sink, mangan, kopar, kólín, kalk, boron en einna mest af kalíum. Þau eru notuð fersk í salöt áður en þau eru fullvaxin, einnig er hægt að fá þau niðursoðin í krukku og þykja mikið lostæti í S-Evrópu. Líka eru þau notuð þurrkuð í te, hafa vökvalosandi áhrif og hafa því reynst þeim vel sem þjást af bjúg.

Rætur fífilsins voru áður fyrr víða notaðar sem „lifrarseyði“ þar sem menn höfðu hugmyndir um að þær myndu styrkja starfsemi lifrarinnar. Í dag eru þær mikið notaða einmitt í því skyni.

Eins og aðrar beiskar jurtir er fíflarót oft notuð til að reyna að auka matarlyst og meðhöndla minniháttar meltingarvandamál, s.s. hægðatregðu. Beiskjan veldur einnig aukinni framleiðslu á galli og flæði þess frá lifrinni. Aukið gallflæði getur haft jákvæð áhrif á fituefnaskipti, að kólesteróli meðtöldu. Einnig hefur þurrkuð rótin verið ristuð og notuð sem kafflíki.

Að öllu jöfnu er notkun á fíflablöðum og -rótum mjög örugg en fólki með gallsteina er ráðlagt að nota fífilinn sparlega. Sé gallflæðið með öllu stíflað ætti ekki að nota túnfífil. Þar sem fífillinn hækkar örlítið magasýrurnar ætti fólk með magasár eða magabólgur að nota fífilinn í hófi. Fólk á blóðsykurslækkandi lyfjum, vatnslosandi lyfjum, insúlíni eða lithium ætti að ráðfæra sig við lækni áður en byrjað er að nota fífilinn.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.