Glitbrá / e: Feverfew

Glitbrá er nokkuð þekkt lækningajurt og hefur verið notuð við ýmsum kvillum en á áttunda áratugnum urðu áhrif hennar gegn mígreni þekkt og er hún í dag fyrst og fremst notuð við þeim sjúkdómi.

Til að fá úr því skorið hvort glitbrá gagnast raunverulega við mígreni hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir eða tilraunir á fólki. Í öðru tölublaði læknaritsins The Lancet frá 1988 er greint frá niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á hópi 59 sjúklinga í 8 mánuði. Fyrstu fjóra mánuðina fékk helmingur sjúklinganna glitbrá daglega en hinn helmingur hópsins fékk lyfleysu. Seinni fjóra mánuðina var þessu snúið við þannig að þeir sem fengið höfðu glitbrána fengu nú lyfleysu og öfugt. Niðurstaða þessarar rannsóknar var sú að hjá þeim sem fengu glitbrá fækkaði mígrenitilfellum um 24% og í þeim hópi dró einnig úr velgju og ógleði meðal þeirra sem fengu mígreniköst.

Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar á mígrenisjúklingum með glitbrá og hafa sumar sýnt mjög jákvæð áhrif á sjúkdóminn en aðrar minni og sumar jafnvel lítil sem engin áhrif. Bent hefur verið á að í þessum tilraunum voru notaðar jurtir sem voru misjafnlega unnar en bestur árangur næst með muldu laufi jurtarinnar. Fjöldi fólks hérlendis hefur notað glitbrá með góðum árangri.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.