Acidophilus

L. acidophilus er í hópi vinveittra gerla, sem hjálpa til við að byggja upp heilbrigðan og vel starfandi gerlagróður í acidophilus_plus_1meltinarfærunum. Skyldir gerlar eru L. bulgaricus, L. thermophilus, L. reuteri, S. bulgaricus S. faecium og B. bifidus. Þessir gerlar eru ekki aðeins einkar gagnlegir meltinarfærunum, heldur fyrirbyggja þeir líka offjölgun óæskilegra örvera. Margt getur sett meltinguna úr jafnvægi, t. d. lélegt mataræði, mikið sælgætisát, neysla lyfja, einkum fúkkalyfja, en neysla þeirra t. d. pensilíns eyðileggur ævinlega gerlagróður meltingarfæranna, því þau ráðast ekki bara á óvinveittar bakteríur heldur rústa þau jafnframt vinveittum örverum. Ekki er óalgent að fólk lendi í langvarandi erfiðleikum með meltinarfærin eftir fúkkalyfjaneyslu. Vegna þess að óæskilegir gerlar og gersveppir taka yfirhöndina geta konur fengið sýkingu í leggöng. Því er mikilvægt að nota Acidophilus með fúkkalyfjaneyslu til að halda réttum gerlum í horfinu og nota það í nokkurn tíma eftir að neyslu fúkkalyfja er lokið.

 

Acidophilus er mikilvæg hjálp við flestum kvillum í meltingarfærum. T. d. er gott að nota það með öðrum þar til völdum efnum til að laga harðlífi, en það er jafnframt afar nauðsynlegt til að losna við þrálátan niðurgang. Rannsóknir benda til að Acidophilus gagnist gegn veirutengdum niðurgangi í börnum, einnig til að fyrirbyggja niðurgang á ferðalögum í framandi matarumhverfi. Nokkrar rannsóknir staðfesta einnig ágæti Acidophilus gegn sýkingu af völdum gersveppa í leggöngum. Acidophilus hefur ekki síst verið notað í baráttunni við svonefnda sveppasýkingu (candida albicans), sem getur valdið fjölda einkenna, svo sem þreytu, meltingartruflunum, endurteknum ennisholubólgum, vöðvaverkjum og jafnvel geðsveiflum.

Acidophilus er gott gegn of miklum magasýrum, lagar sýrustig meltingarfæranna, bætir upptöku járns, eykur nýtingu B-5 vítamíns, getur hjálpað gegn exemi, auk þess sem það getur stuðlað að bata alls konar kvilla sem orsakast af því að meltingarfærin eru ólagi.

 

Acidophilus með Pectin

Pectin er stundum haft með Acidophilus, vegna þess að það aðstoðar við losun óæskilegra málma og eiturefna, auk þess sem það hjálpar við losun kólesteróls. Jafnframt benda rannsóknir til að það dragi úr hættu á hjartasjúkdómum og gallsteinum.

 

FOS

Til að tryggja góð áhrif Acidophilus-gerlanna og jafnvel auka þau, er gott að not FOS með þeim. FOS (fructo-oligosaccharides) eru ákveðin kolvetni sem unnin eru úr ávöxtum. Þau virka á Acidophilus-gerlana eins og húsdýraáburður á gras. Þau næra gerlana og skapa þeim einkar vænlegt umhverfi til að dafna í.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.