Vegan karamellustangir – hollara nammi sem gælir við bragðlaukana

Þessi guðdómlega uppskrift kemur frá henni Önnu Guðnýju hjá Heilsa og Vellíðan

Konfekt sem er í senn fáránlega gott og nærandi! Við biðjum ekki um meira.

Við mælum með að lesa alla uppskriftina áður en hafist er handa.

Súkkulaðihjúpur

 • 100 ml kókosolía
 • 50 ml kakósmjör
 • 1,5 dl hrákakó
 • 70 ml hlynsýróp
 • 2 msk kókosþykkni (þykki hlutinn af kókosmjólk úr dós)
 • Gróft salt

Aðferð:

 1. Bræddu saman kókosolíu og kakósmjör
 2. Hrærðu svo öllu vel saman og láttu standa á meðan þú gerir karamelluna
 3. Settu svo smá súkkulaðihjúp í botninn á konfektforminu og stingdu því í frystinn á meðan þú gerir karamelluna

Karamellan

 • 150 gr döðlur (lagðar í bleyti ef þær eru harðar)
 • 4 msk hnetusmjör
 • 6 msk kókosþykkni (þykki hlutinn af kókosmjólk úr dós)
 • 1/4 tsk vanilluduft frá Sonnentor
 • Gróft salt

Aðferð:

 1. Skelltu öllu í matvinnsluvél og láttu hana vinna þangað til blandan er silkimjúk
 2. Settu karamellu í formin og hjúpaðu með súkkulaði
 3. Settu formið aftur í frysti
 4. Geymdu í frysti og taktu út stuttu áður en þú ætlar að fá þér eða bera fram.

 

Gott að vita

 • Ef að þú átt ekki konfektform er auðvitað hægt að setja karamelluna í ferningslaga form og frysta hana þannig. Þá skerð þú hana svo í litla teninga og dýfir henni í súkkulaðihjúpinn og frystir síðan aftur. En karamellustangirnar verða að geymast í frysti og bráðna fljótlega við stofuhita.
 • Kókosþykkni er þykki hlutinn af kókosmjólk. Það er gott að setja kókosmjólkina aðeins inn í ísskáp til að þykknið aðskilji sig kókosvatninu en það þarf samt ekkert endilega. Oftast er þetta ágætlega aðskilið þegar maður opnar dósina.

Uppskrift og myndir eru eign Önnu Guðnýjar Torfadóttur og má ekki nota nema með hennar leyfi.