Dásamlegar vegan súkkulaðikaramellur

Þessar bráðna í munni og Anna Guðný hafði uppskriftina viljandi litla því það er erfitt að klára ekki hvern einasta mola 😉 Það er auðvitað hægt að tvöfalda og jafnvel margfalda uppskriftina ef þú ætlar að deila eða bjóða uppá þessa dásemd í næstu veislu.

Innihald:

 • 2 msk möndlusmjör
 • 3 msk hrákakó
 • 2 msk kókosolía
 • 3 msk hlynsíróp
 • 1 msk kakósmjör
 • 1/4 tsk vanilluduft
 • gróft salt

Aðferð

 1. Byrjaðu á því að bræða kókosolíuna og kakósmjörið.
 2. Settu síðan öll hráefnin saman í matvinnsluvél og láttu hana blanda þessu vel saman þar til að þetta er orðið silkimjúkt deig.
 3. Ég setti bökunarpappír í lítið brauðform og mótaði deigið síðan þar ofan í en þú getur að sjálfsögðu sett þetta á hvað sem er. Mótaðu þetta og settu þetta síðan beint inn í frysti.
 4. Þegar að karamellurnar hafa harðnað í frystinum er þér óhætt að taka þær út, skera niður í teninga og setja þær síðan í lokaða krukku.
 5. Karamellurnar verða að geymast í frystinum.

 

Uppskriftin og myndirnar eru sköpun og eign Önnu Guðnýjar Torfadóttur