E vítamín

E-vítamín hefur af sumum verið kallað skylduvítamínið vegna þess hve erfitt er að fá það magn sem líkaminn þarfnast úr fæðunni, nema borða meira en 5.000 hitaeiningar á dag. E-vítamín er fituleysanlegt en ólíkt öðrum fituleysanlegum vítamínum geymist það stuttan tíma í líkamanum. E-vítamín aðstoðar við súrefnisflutning, bætir blóðrásina og hefur æðaútvíkkandi áhrif. Það er náttúrulegur storkuvari og blóðsegaleysir og vinnur því gegn æðakölkun. Margir hafa borið E-vítamín olíu á brunasár og fleiður með góðum árangri, þar sem hún hefur afar græðandi áhrif og kemur í veg fyrir öramyndun. E-vítamín er öflugt þrávarnarefni fyrir ómettaðar fitusýrur, kynhormóna og fituleysanleg vítamín sem vilja eyðileggjast í líkamanum vegna súrefnis. Hæfileiki þess til að verja frumur líkamans gegn stakeindum gerir það að öflugu andoxunarefni.

Ótal rannsóknir hafa verið gerðar á E-vítamíni og hafa þær beinst að verndandi þætti E-vítamíns gegn ýmsum tegundum krabbameins, mengun, sígarettureyk, hjartasjúkdómum og sinadrætti svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður benda til jákvæðra áhrifa E-vítamíns í þessum tilfellum þótt vísindamenn vilji fara afar varlega í að alhæfa neitt og telji frekari rannsókna þörf.

Auðvelt er að átta sig á hvort E-vítamín sé náttúrulegt eða tilbúið, því náttúrulegt E-vítamín er skilgreint sem d-alfa tókóferól (á ensku: d-alpha tocopherol) en tilbúið er skilgreint sem dl-alfa tókóferól. Náttúrulegt E-vítamín er talið virka mun betur en tilbúið.

E-vítamín er að finna í grófu mjöli, jurtaolíum, eggjum, grænlaufguðu grænmeti, sojabaunum, hveiti-, rúg- og maískími og spínati. Getnaðarvarnarlyf, paraffínolía, laxerolía, járn, klór, hiti, súrefni og frost eru gagnvirk E-vítamíni.

Einkenni E-vítamínskorts er vöðvarýrnun, hrörnun kransæða, stífla í æðum lungna, eyðing rauðra blóðkorna, blóðrauðakvillar og kvillar tengdir æxlun, svo sem ófrjósemi og missir kyngetu. Einnig getur skortur á E-vítamíni leitt til hjartasjúkdóma og ótímabærrar öldrunar.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að 1 árs aldri: 3-4 mg
  • börn 1 – 6 ára: 5-6 mg
  • börn 7-10 ára: 7 mg
  • drengir 11-14 ára: 8 mg
  • karlar eldri en 14 ára: 10 mg
  • konur eldri en 10 ára: 8 mg
  • þungaðar konur: 10 mg
  • konur með barn á brjósti: 11 mg

Ath: Magn E-vítamíns í hylki eða töflu er mjög oft gefið upp í ae (alþjóðaeiningum), á ensku iu (international units). 1 mg af E-vítamíni samsvarar 1,5 ae.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.