Selen

Selen er snefilsteinefni sem m.a. fyrirbyggir að fita oxist eða þráni. Selen er mikilvægt andoxunarefni sérstaklega með E-vítamíni, en þau eru samvirk. Saman hjálpa þau meðal annars við framleiðslu mótefna og til að viðhalda heilbrigði hjarta og lifrar. Selen verndar ónæmiskerfið með því að koma í veg fyrir myndun sindurefna sem vinna skemmdir á frumum líkamans. Selen er nauðsynlegt starfsemi briskirtilsins og fyrir teygjanleika vefja.

Rannsóknir hafa sýnt að selenskortur geti aukið líkur á sumum krabbameinum og skjaldkirtilssjúkdómum.

Sé jarðvegur selensnauður þar sem matvæli eru ræktuð þá getur skort selen í annars selenrík matvæli. Þetta getur valdið selenskorti hjá fólki sem borðar mat af slíkum svæðum, mat sem í raun ætti að innihalda nægilegt magn selens.

Selen er helst að finna í brasilíuhnetum, tómötum, spergilkáli, túnfiski, hveitikími og klíði. Það er einnig að finna í ölgeri, kjúkling, hvítlauk, þara, lifur, lauk, laxi, sjávarfangi og ýmsu grænmeti. Selen tapast oft í matvælaframleiðslu. Því er mikið unnin matvara líklegri til að vera selensnauð.

Einkenni selenskorts geta lýst sér sem úthaldsmissir fyrir aldur fram, ýmiss konar hjarta- og vöðvasjúkdómum, hækkaðri tíðni krabbameins og skertu ónæmi gegn sjúkdómum. Þá verður vart við þreytu, hækkun kólesteróls, sýkingar, lifrarsjúkdóma og ófrjósemi í tengslum við skort á seleni. Selenskortur getur einnig aukið líkur á skjaldkirtilssjúkdómum.

Ráðlagðir dagsskammtar eru mældir í míkrógrömmum (µg):

  • ungbörn 0-6 mánaða: 10 µg
  • ungbörn 6-12 mánaða: 15 µg
  • börn 1-3 ára: 20 µg
  • börn 4-6 ára: 25 µg
  • börn 7-10 ára: 30 µg
  • karlar 11-14 ára: 40 µg
  • karlar 15 ára og eldri: 50 µg
  • konur 11 ára og eldri: 40 µg
  • þungaðar konur: 55 µg
  • konur með barn á brjósti: 55 µg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.