Kopar / e: Copper

Kopar gegnir mikilvægu hlutverki við myndun beina, blóðrauða og rauðra blóðkorna. Hann er samvirkur með sinki og C-vítamíni við myndun elastíns. Kopar er nauðsynlegur til að nýta járn, fyrir bragðskyn, heilbrigt bataferli, orkuframleiðslu líkamans og eðlilegan lit húðar og hárs. Hann þarf einnig fyrir heilbrigði heila, tauga og beina. Talið er að koparskortur geti verið einn af stærri áhættuþáttum sem valda hækkaðri blóðfitu, fituhrörnun æða ásamt öðrum hjarta og æðasjúkdómum.

Kopar finnst víða í fæðu t. d. möndlum, hnetum, avokadó, baunum, byggi, mólassa, spergilkáli, hvítlauk, linsum, lifur, sveppum, höfrum, appelsínum, radísum, rúsínum, laxi, sjávarfangi, sojabaunum og grænu laufguðu grænmeti. Kopar kemst einnig í fæðuna hjá okkur við að leysast upp úr vatnsleiðslum og eldhúsáhöldum.

Einkenni koparskorts eru ekki algeng þar sem hann finnst í mörgum fæðutegundum. Þau eru blóðleysi, beinþynning, hárlos, meltingartruflanir, niðurgangur, slappleiki, sáramyndun á húð, lækkun á HDL góða kólesterólinu og hækkun á LDL slæma kólesterólinu, auk áður nefndra hjarta- og æðasjúkdóma.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn 0-6 mánaða 0,4-0,6 mg
  • ungbörn 6-12 mánaða 0,6-0,7 mg
  • börn 1-3 ára 0,7-1,0 mg
  • börn 4-6 ára 1,0-1,5 mg
  • börn 7-10 ára 1,5-2,5 mg
  • bæði kyn 11 ára og eldri 1,5-3,0 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.