Kelp / þari

Íslenska orðið þari er í raun samheiti yfir margar gerðir þarategunda (e: seaweed) en á meðal þeirra eru söl, kombu, wakame og nori. Íslensku sölin hafa fengið viðurnefnið sjávarnasl og eru borðuð þurrkuð (með smjöri fyrir lengra komna!!), kombu er gjarnan soðið með baunum til að draga úr loftmyndandi áhrifum þeirra, wakame notað í salöt og nori í sushi.

Hins vegar er brúnþari af ættinni Laminariaceae notaður til framleiðslu á þaratöflum. Í þessum þara (e: kelp) er nokkuð af B-vítamíni en hann er sérstaklega steinefnaríkur og inniheldur m.a. joð, kalíum, magnesíum, kalk og járn. Joð er mjög mikilvægt fyrir heilbrigða starfsemi skjaldkirtils og getur skortur á joði valdið því að kirtillinn verði vanvirkur. Vanvirkur skjaldkirtill veldur m.a. mikilli þreytu, lágum líkamshita, harðlífi, þunglyndi, stækkun á kirtlinum (kúla á hálsinum), frjósemisvanda og hárlosi, einnig á augabrúnum. Þó fólk finni fyrir einhverju af ofangreindum kvillum, þarf það alls ekkert að tengjast skjaldkirtlinum. Best er að fara í rannsókn.

Í þara eru einnig efni sem talin eru góð yrir heilavefinn, himnur sem umlykja heilann, skyntaugar og mænuna. Eins getur hann styrkt neglur og æðar. Hann er steinefnaríkur og er stundum ráðlagður gegn hárlosi. Þeir sem eiga við, eða telja sig eiga við skjaldkirtilsvandamál að stríða ættu að leita til læknis.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.