Sjóveiki

Fátt er óyndislegra í siglingum en sjóveiki og sama við flug- og bílveiki. Til eru sjóveikitöflur sem hafa samt þær leiðu aukaverkanir að virka einnig sljóvgandi. Úr heimi jurtanna má hins vegar finna einstaklega virka hjálp við þessum hvimleiðu þrautum. Svo skemmtilega vill til að þessi jurt er algeng kryddjurt sem áður fyrr var helst notuð þurkkuð í bakstur en hefur rutt sér mjög til rúms í matargerð hérlendis á síðari árum, en þessi jurt er engifer.

Í rannsókn sem fór fram á stóru ítölsku skemmtiferðaskipi voru borin saman engifer í hylkjum og dimenhydrinat, virka efnið í mörgum ferðaveikipillum. Til rannsóknar voru 60 farþegar á skipinu yfir tveggja daga tímabil þegar vont var í sjóinn. Í ljós kom að bæði efnin voru jafngóð til þess að losna við einkenni sjóveikinnar en munur var á aukaverkunum. Aðeins 13% þeirra sem tóku engifer fengu aukaverkanir (t.d. höfuðverk og sljóleika) á móti 40% af þeim sem fengu venjulegar sjóveikipillur. Sama niðurstaða hefur hefur fengist úr rannsóknum annarra aðila á notkun engifers gegn ferðaveiki og hefur engifer jafnvel reynst áhrifaríkari gegn ferðaveiki en hefðbundnar sjóveikipillur í sumum rannsóknum.

Heimildir:

http://www.healthcentral.com/

Lancet, Mar. 20, I:655-657, Mowrey, D. and Clayson, D:E: (1982) Motion sickness, Ginger and psychophysics.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.