Liðagigt

Liðagigt eða iktsýki einkennist af því að liðirnir bólgna upp, sem aftur getur valdið því að liðbrjóskið skemmist. Einnig getur beinið undir liðbrjóskinu sem og liðpokinn í kring, orðið fyrir skemmdum. Helstu einkenni eru morgunstirðleiki, verkir, liðbólgur og minnkuð hreyfigeta. Önnur einkenni geta verið bólgin augu, dofi í höndum, smá hnúðar undir húðinni, auk þess sem margir sjúklingar finna fyrir þreytu og vanlíðan. Sjúkdómurinn er algengari hjá konum en körlum og getur gert vart við sig upp úr þrítugsaldri.

Orsakir liðagigtar

Orsakir liðagigtar eru ekki þekktar. Margt bendir til að liðagigt orsakist m.a. af sjálfsnæmi, þar sem ónæmiskerfið ræðst gegn vefjum liða í eigin líkama. Rannsóknir hafa einnig beinst að erfðaþáttum, lifnaðarháttum, mataræði, fæðuofnæmi og örverum.

Ráð við liðagigt

Læknisfræðin upplýsir okkur um að liðagigt sé ólæknandi, en notuð eru bólgueyðandi lyf og önnur lyf sem draga úr afleiðingum sjúkdómsins en ráðast ekki að rótum vandans. Til eru nokkur bætiefni sem hafa reynst mörgum liðagigtarsjúklingum vel og á bak við sum þessara efna liggja niðurstöður rannsókna sem staðfesta ágæti þeirra.

Náttljósarolía

Nauðsynlegar (essential) fitusýrur eru afar mikilvæg fæðuefni sem líkaminn getur ekki framleitt upp á eigin spýtur frekar en flest vítamín. Þetta eru fjölómettaðar fitusýrur sem líkaminn verður að fá úr fæðunni og því eru þær sagðar vera „nauðsynlegar“ (essential). Cis-linolsýra er ein sú mikilvægasta þeirra, en til að ná fram lífrænni virkni hennar verður líkaminn fyrst að umbreyta henni í gammalínólensýru (GLA) í þeim tilgangi að mynda stýriefni sem kallast prostaglandin í flokki 1, m.a. PGE1. Því miður getur þetta umbreytingarferli orðið fyrir hindrunum t.d. vegna sykursýki, veirusýkinga, hormónabreytinga, öldrunar, af völdum áfengis og fæðu sem inniheldur mikið af mettuðum fitusýrum, kólesteróli og ýmsum mikið unnum matarolíum og smjörlíki. Einnig getur skortur á sinki, magnesíum eða B-6 vítamíni orðið til þess að hindra framleiðslu líkamans á GLA, sem veldur svo skorti á prostaglandini. Prostaglandin tilheyrir hópi efna sem líkjast hormónum og gegna mikilvægu hlutverki í samdrætti vöðva, samloðun flóðflaga, útvíkkun og samdrætti æða, sársaukatilfinningu og bólguviðbrögðum.

Nú hafa menn fundið jurt sem inniheldur gammalínólensýruna sjálfa, þannig að þó líkaminn sé ekki í standi til að vinna hana úr jurtaolíum sem neytt er í venjulegri fæðu, þá má tryggja honum þetta mikilvæga byggingarefni prostaglandins beint úr olíu sem unnin er úr fræjum náttljóss, blóms sem einnig er nefnt kvöldvorrós.

Liðagigt er sjúkdómur með langvarandi bólgum í liðum sem leiða til skemmda í liðbrjóskinu og geta jafnvel valdið skemmdum á beini og liðpokanum í kring. Við liðagigt eru aðallega gefin bólgueyðandi lyf og sterar, þau slá á verki og bólgur og auka hreyfigetuna, en þau lækna ekki sjúkdóminn, því allt fer í fyrra horf ef sjúklingurinn hættir að nota lyfin. Því miður valda þessi lyf yfirleitt slæmum aukaverkunum, einkum séu þau notuð til langframa eins og yfirleitt þarf að gera. Kosturinn við GLA (sem sé virka efnið í náttljósarolíu) er m.a. sá að það hefur ekki þessar aukaverkanir. GLA dregur úr bólgum í liðunum og þar af leiðandi réna líka verkirnir og í mörgum tilfellum hverfa þeir. Bólga hjá liðagigtarsjúklingum á m.a. rætur að rekja til aukinnar myndunar T-eitilfruma. GLA hindrar myndun þessara T-fruma (Vassilopoulus et al 1997, Horrobin et al 1979) og virðist einnig hemja vöxt hálafruma sem mikið er af í liðagigtarsjúklingum (Baker et al 1989).

Náttljósarolía er þó engin endanleg lækning við liðagigt, því sé neyslu þess hætt, fær líkaminn eðlilega ekki þann skammt af GLA sem nýttist til að draga úr bólgunum. Iðulega hefur fólk þó getað minnkað skammtinn þegar frá líður. Áhrifin af náttljósarolíu koma misfljótt í ljós eftir einstaklingum. Sumir finna mun fljótlega, en yfirleitt er ráðlagt að nota náttljósarolíu í a.m.k. 3 mánuði áður en vænta má þess að finna fyrir bata. Þeir sem eru á lyfjum ættu alls ekki að sleppa þeim, heldur taka fyrst náttljósarolíu inn í nokkurn tíma og síðan,
helst í samráði við lækni, draga úr notkun lyjanna. Til að náttljósarolía nýtist fullkomlega þarf að vera til staðar nægjanlegt magn af B-6, B-3, sinki og C-vítamíni. Því er æskilegt að taka bætiefni sem inniheldur þessi efni, sé ekki verið að nota fjölvítamín, en þessi efni eru í flestum fjölvítamínum.

Omega-3 fitusýrur

Staðfest hefur verið með allnokkrum fjölda tvíblindrannsókna að omega-3 fitusýrurnar í lýsi draga úr einkennum liðagigtar. Það eru fitusýrurnar EPA og DHA sem gagnast hafa, en í flestum rannsóknum hafa verið notuð daglega um 1800 mg af EPA. Sé notað þorskalýsi er nauðsynlegt að gæta þess að taka ekki inn of mikið D-vítamín (hæfilegur dagsskammtur eru 400 ae eða 10 µg). Heppilegra er að nota hylki sem merkt eru omega-3 eða EPA, því þau eru alla jafna laus við A- og D-vítamín.

Engifer

Heimildir eru fyrir því að engifer hefur verið notaður í Kína í yfir 2000 ár sem verkjalyf. Rannsóknir hafa staðfest að þessi vinsæla kryddjurt hefur bólgueyðandi eiginleika og geti komið að notum gegn liðagigt. Kaupmannahafnarháskóli stóð á bak við rannsóknir sem renna stoðum undir þetta.

Selen

Algengt er að selenmagn í blóði sé tiltölulega lágt hjá liðagigtarsjúklingum. Þetta gæti skipt máli, þar sem selen er mikilvægt andoxunarefni og er samverkandi þáttur sindurefnaeyðandi ensímsins glútatíon peroxídas. Selen er einnig mikilvægt við að draga úr framleiðslu bólguvaldandi prostaglandína og leukotrína, en þessi efni ásamt sindurefnum eru ábyrg fyrir miklu af þeim skaða sem liðagigt veldur. Vísindarannsóknir hafa enn ekki staðfest að selen eitt og sér bæti liðagigt, en ásamt E-vítamíni hefur það haft jákvæð áhrif.

Glukósamín súlfat og kondróitín súlfat

Glucosamin sulfate er nauðsynlegt til myndunar bandvefs í líkamanum. Helsta hlutverk þess er að efla framleiðslu brjósks og hefur því reynst vel til að viðhalda brjóski í liðum. Chondroitin sulfate er eitt aðalbyggingarefni brjósks, sina og beina. Það verndar brjósk gegn árásum ensíma sem valda skemmdum á því. Góður árangur kom í ljós í 12 mánaða tvíblindri rannsókn sem bar saman virkni kondróitíns og lyfleysu
á 104 sjúklinga með liðagigt í hnjám.1 Tvær rannsóknir aðrar með samtals 350 þátttakendum leiddu hliðstæðan árangur í ljós, bæði við liðbólgum í hnjám og mjöðmum.2,3

Bæði draga þessi efni úr bólgum í liðum og má fá þau saman í einni töflu

C- og E-vítamín og sink

Þessi 3 bætiefni eru öflug andoxunarefni, hafa að hluta til bólguhemjandi verkun og sýnt hefur verið fram á að þau geti gagnast við liðagigt.

Mataræði

Náttúrulæknar ráðleggja ýmis konar mismunandi mataræði fyrir liðagigtarsjúklinga, en gegnumgangandi má segja að hollur, fjölbreyttur matur sé æskilegur. Hann ætti að vera auðugur af trefjum, með háu hlutfalli af kornmat og grænmeti helst lífrænt ræktuðu, en draga ætti úr neyslu sykurs og sætinda, kjöts og mettaðarar fitu. Margt bendir til að fæðuofnæmi og sérstaklega óæskileg fita hafi áhrif á bólguferlið. Varðandi ofnæmi, þá geta hinar margvíslegustu fæðutegundir valdið því, en algengir ofnæmisvaldar eru hveiti, maís, mjólk og
mjólkurafurðir og kjöt.

Fita í matvælum er þáttur sem nauðsynlegt er að gefa sérstakan gaum. Þó að sumar fitusýrur gagnist gegn liðagigt, eins og fjölómettuðu fitusýrurnar í lýsi og náttljósarolíu, eru aðrar bólguvaldandi. T.d. er arakídónsýra fitusýra sem ættuð er svo til eingöngu úr dýrafitu (kjöti, mjólkurafurðum o.s.fr.) og stuðlar mjög að bólgum, því hún umbreytist í líkamanum í bólguhvetjandi próstaglandín og leukótrín. Að því leyti er grænmetisfæði heppilegt fyrir liðagigtarsjúklinga, að þá fær líkaminn miklu minna magn af arakídonsýru. Aftur á móti eru eins og fyrr segir, omega fitusýrurnar úr kaldsjávarfiskum af hinu góða, þannig að fiskneylsa er mjög af hinu góða.

Hreyfing

Margt bendir til að hæfileg hreyfing sé afar jákvæð. Léttar æfingar, einnig í vatni eru af hinu góða, t.d. getur gefið góða raun að stunda æfingar í heitum potti.

Heimildir :

  1. Conrozier T. Anti-arthrosis treatments: efficacy and tolerance of chondroitin sulfates (CS 4&6) [translated from French]. Presse Med. 1998;27:1862-1865.
  2. Bourgeois P, Chales G, Dehais J, et al. Efficacy and tolerability of chondroitin sulfate 1200 mg/day vs chondroitin sulfate 3 x 400 mg/day vs placebo. Osteoarthritis Cartilage. 1998;6(suppl A):25-30.
  3. L’Hirondel JL. Double-blind clinical study with oral administration of chondroitin sulphate versus placebo in tibiofemoral gonarthrosis (125 patients) [in German]. Litera Rheumatol. 1992;14:77-84.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.