Eyrnabólga

Eyrnabólga
Eyrnabólga

Talið er að allt að 95% barna fái eyrnabólgu að minnsta kosti einu sinni fyrir sex ára aldur. Margir kannast við lýjandi vökunætur yfir barni sínu með eyrnabólgu. Vanmáttartilfinningin er algjör og lítið hægt að gera annað en að hlusta á þau gráta af sársauka. En eyrnabólga leggst ekki aðeins á börn. Fullorðnir sem hafa orðið fyrir þessari árás á eyrun geta gert sér í hugarlund hversu sárt þetta er fyrir litlu krílin.

Hvað er eyrnabólga?

Til eru nokkrar tegundir af eyrnabólgu en algengastar eru bólga í ytra eyra og sýking í miðeyra. Bólga í ytra eyra (external otitis) er bráðasýking sem kemur yfirleitt í kjölfar sýkingar í öndunarfærum eða ofnæmis. Hlustin (göngin sem ná frá hljóðhimnu og út) bólgnar og þrútnar. Einkenni geta verið (vægur) hiti, vessi lekur úr eyranu og verkur sem versnar gjarnan ef togað er í eyrnasnepilinn eða hann snertur. Verkurinn stafar yfirleitt af því að eyrnamergur sem safnast hefur fyrir og kemst ekki út, lokar vatn inn í hlustinni og skapar þannig aðstæður fyrir sýkinguna að ná sér á strik.

Sýking í miðeyra (otitis media), er sú sýking sem algengust er hjá börnum. Þessi sýking tekur sér bólfestu fyrir aftan hljóðhimnuna, þar sem smábeinin liggja (hamar, steðji og ístað). Einkenni geta verið hiti og eyrnaverkur, ýmist stingandi, seiðingur eða eins og hjartsláttur sé í eyranu. Einnig þrýstingur á eyrað eða eins og búið sé að fylla eyrað af vatni. Oft er hægt að sjá hvorum megin sýkingin er þar sem börn toga gjarnan eða klóra í eyrað þar sem verkurinn er. Þunnt loftslag (hátt yfir sjávarmáli, uppi í fjöllum) og kuldi geta aukið á óþægindin og jafnvel gert sýkinguna verri.

Slæm sýking í miðeyra getur valdið því að hljóðhimnan rifni. Það getur lýst sér í því að verkurinn hverfur skyndilega en hann stafar af þrýstingi sem eykst jafnt og þétt á mjög viðkvæma taugaenda í eyranu. Rifni hljóðhimnan losnar um þennan þrýsting og fylgir því yfirleitt tímabundið tap á heyrn og lekur jafnvel blóðlitaður vessi úr eyranu. Er þá ráðlegt að leita til læknis. Hljóðhimnan grær saman að sjálfu sér en gæta þarf þess að eyrað blotni ekki mikið (setja t.d. tappa í eyrun þegar farið er í bað og sund) og reyna að fyrirbyggja frekari eyrnabólgu.

Baktería, vírus eða fæðuóþol?

Um þriðjungur barna fá síendurteknar eyrnabólgur fram að sex ára aldri. Þetta er ein algengasta sjúkdómsgreiningin í heilbrigðisgeiranum. Margar mismundandi tegundir af bakteríum og vírusum valda eyrnabólgum í miðeyra. Aðeins er hægt að greina hvort um bakteríu- eða vírussýkingu sé að ræða með því að stinga á hljóðhimnuna og taka sýni til ræktunar en þar sem eyrað er mjög viðkvæmt er þetta ekki fýsilegur kostur. Sýklalyf virka aðeins á bakteríur og er meðhöndlun á eyrnabólgu þar af leiðandi afar erfið. Þar sem bakteríur geta myndað ónæmi gegn sýklalyfjum með langvarandi og/eða síendurtekinni notkun þeirra, er æskilegt að reyna að taka þau aðeins í brýnustu þörf.1,2

Fái barn þrálatar og síendurteknar eyrnabólgur er yfirleitt mælt með að það fái rör í eyrun. Það er lítið plaströr sem komið er fyrir í hljóðhimnunni til að koma í veg fyrir að vökvi safnist í miðeyrað. Hann á þá greiða leið út úr eyranu og minnka þá verulega líkurnar á sýkingu. Með ísetningu röra er þó ekki hægt að ábyrgjast að viðkomandi fái aldrei aftur eyrnabólgu.3 Tíðni eyrnavandamála er hærri á heimilum þar sem reykt er.4

Fæðuofnæmi getur einnig verið orsakavaldur tíðra eyrnabólgna.5 Algengustu ofmæmisvaldarnir eru hveiti, mjólkurvörur, appelsínur, hnetur og sykur.6 Ungbörn sem eingöngu eru á brjósti geta einnig fengið snefil af þessum fæðutegundum í gegnum mjólkina. Yfirleitt er mæðrum bent á að byrja á að sleppa mjólkurvörum og appelsínum úr mataræði sínu en best er að sjálfsögðu að fara með barnið í ofnæmispróf.

Gamalt húsráð sem reynst hefur mörgum vel, er að skera niður venjulegan lauk, pakka eða vefja honum í grisju eða hliðstætt efni og leggja við höfuðið á bak við eyrun, jafnvel eftir hnakkanum eyrna á milli. Börn sem hafa grátið langtímum saman vegna verkja, þagna og eru jafnvel sofnuð á innan við 10 mínútum eftir að laukurinn er lagður á þau.

Bætiefni

Sólhattur er bólgueyðandi jurt og hefur vírusdrepandi áhrif. Hún styrkir einnig ónæmiskerfið og er því afar mikilvæg þeim sem auðveldlega fá kvef og/eða eyrnabólgu. Þessi jurt er til bæði á töflu- og vökvaformi og hana má gefa ungbörnum. Auk þess að taka inn sólhattinn er hægt að setja nokkra dropa af vökvanum í bómullarhnoðra og koma varlega fyrir í eyranu (alls ekki langt inn í hlustina). Þannig kemst hið virka efni í eins mikla nálægð við sýkinguna og kostur er. Þegar þetta er gert skal nota áfengislausa upplausn af sólhatti. Skipta skal bómulnum út á 2-3ja tíma fresti.

????????????????????????????????????

Hvítlaukur hefur lengi verið talinn hið náttúrulega sýklalyf. Hann er einnig til í dropum sem auðvelt er að gefa börnum og hægt er að nota hann á sama hátt og sólhattinn með því að setja í bómul og koma varlega fyrir í eyranu.

C-vítamín styrkir ónæmiskerfið.

Sínk styrkir ónæmiskerfið og er bólgueyðandi.

00zinc

Heimildir:

1. Del Mar C, Glasziou P, Hayem M. Are antibiotics indicated as
initial treatment for children with acute otitis media? A
meta-analysis. BMJ 1997;314:1526-9.

2. Kozyrskyj AL, Hildes-Ripstein GE, Longstaffe SE, et al.
Treatment of acute otitis media with a shortened course of antibiotics:
a meta-analysis. JAMA 1998;279:1736-42.

3. Le CT, Freeman DW, Fireman BH. Evaluation of ventilating tubes
and myringotomy in the treatment of recurrent or persistent otitis
media. Pediatr Infect Dis J 1991;10:2-11.

4. Ethel RA, Pattishall EN, Haley NJ, et al. Passive smoking and
middle ear effusion among children in day care. Pediatr 1992;90:228-32.

5. McMahan JT, Calenoff E, Croft J, et al. Chronic otitis media
with effusion and allergy: modified RAST analysis of 119 cases.
Otolaryngol Head Neck Surg 1981;89:427-31.

6. Juntti H, Tikkanen S, Kokkonen J, et al. Cow’s milk allergy is
associated with recurrent otitis media during childhood. Acta
Otolaryngol 1999;119:867-73.

Einnig: Prescription for Nutritional Healing, bls. 244-6.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.