Stóra kókosolíumálið

Kókosolía lendir reglulega á milli tannanna á fólki, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Nýlega fór fyrirlestur eins og eldur í sinu um internetið þar sem prófessor fullyrti að kókosolía væri hreinasta eitur og stórhættuleg heilsunni. Punktur.

Síðan hafa margir stigið fram til varnar kókosolíunni og bent á að þetta sé kannski ekki alveg svona svart eða hvítt.

 

Mettuð fita og kólesteról

Sú fullyrðing að kókosolía sé eitur hvílir á þeirri kenningu að öll mettuð fita sé slæm vegna þess að hún hækki kólesterólmagn í blóði sem auki þannig líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.

Kókosolía er ca. 90% mettuð fita, þess vegna hlýtur hún að vera slæm fyrir okkur eru rökin.

Þessi kenning er reyndar í algjörri mótsögn við margar nýlegri rannsóknir. Sem dæmi voru í fyrra birtar niðurstöður úr mjög stórri faraldsfræðilegri hóprannsókn sem náði til meira en 130 þúsund einstaklinga í 18 löndum og 5 heimsálfum. Niðurstöðurnar voru þær að heildarneysla fitu og neysla mettaðrar og ómettaðrar fitu voru hver um sig ekki tengd aukinni hættu á hjartasjúkdómum eða dauðsfalli af völdum hjartasjúkdóma. Raunar fannst tenging á milli hærri neyslu mettaðrar fitu og LÆGRI tíðni heilablóðfalla. Hærri neysla kolvetna reyndist á hinn bóginn auka tíðna dauðsfalla af öllum ástæðum1.

Í niðurstöðum þessarar rannóknar er kallað eftir breyttum áherslum í næringarráðleggingum.

Og hvað með heilu þjóðfélagshópana í SA-Asíu sem borða mjög mikið af kókosolíu og annarri mettaðri fitu en eru samt með eina lægstu tíðni hjartasjúkdóma í heimi?

Gæti það verið eitthvað annað en bara mettuð fita sem ýtir undir hjartasjúkdóma?

Kannski sykur og helunnin kolvetni, skortur á trefjum, omega 3 fitusýrum og ýmsum næringarefnum?

Kólesteról er nefnilega ekki bara svart eða hvítt heldur. Í grunninn er kólesteról okkur lífsnauðsynlegt. Líkaminn framleiðir það til margra starfa, það er t.d. eitt af grunnbyggingarefunum D vítamíns og margra hormóna.

Það er þegar jafnvægið raskast, hlutföll milli HDL og LDL kólesteróls fara á skjön, að kólesteról verður vandamál.

Hjá frumstæðari þjóðflokkum í SA-Asíu sem borða mikið af mettaðri fitu (allt að 60% heildar kaloríufjölda) hefur HEILDAR kólesterólmagn mælst tiltölulega hátt en vegna þess að hlutfallið á milli LDL og HDL er gott er það ekki vandamál. Þetta er lykilatriði.

 

Gæði skipta máli

Annað lykilatriði er hvernig kókosolíu er verið að neyta? Það skiptir máli hvort það er virgin, óunnin kókosolía eða mikið unnin olía sem hefur verið meðhöndluð með ýmsum efnum og aðferðum sem gera hana að einhverju allt öðru en hún var upphaflega.

Mestu máli skiptir kannski í hvaða samhengi þú notar kókosolíu. Hugsum okkur manneskju sem borðar 90% heilfæði; lítinn sem engan sykur, engar hvítar kornvörur, borðar mikið af grænmeti og litríkum mat, fær fullt af trefjum, nóg af omega 3 og gott jafnvægi af öllum næringarefnum. Fyrir þessa fyrirmyndarmanneskju er náttúruleg mettuð fita líklega ekkert vandamál. Hugsum okkur til samanburðar manneskju sem borðar 90% unna matvöru, mikinn sykur, fransbrauð, fær lítið af trefjum, nánast ekkert grænmeti og er með skort á omega 3 fitusýrum. Fyrir þennan einstakling gæti mettuð fita verið vandamál. Sennilega ekki stærsta vandamálið samt.

Ég tel því að það sé besta mál að halda áfram að nota hreina, virgin kókosolíu í matargerð og bakstur samhliða heilbrigðum lífsstíl og hollu mataræði. Þetta snýst allt um jafnvægi og meðalhófið er málið, er það ekki? Kókosolía er hvorki allra meina bót né eitur.

Svo er hún líka æði á húðina, ekki gleyma því. Margt hægt að gera við kókosolíu annað en borða hana!

 

Heimildir:

  1. Dehgan M. Et al. (2017) Association of fats and carbohydrate intake with cardiovascular disease and mortality in 18 countries from five continents (PURE): a prospective cohort study. Lancet; 390: 2050-2062.

https://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(17)32252-3/fulltext#seccestitle10