Mígreni

Einkenni

Mígreni er höfuðverkur eða öllu heldur höfuðverkjarkast, venjulega öðru megin í höfðinu með þungum æðaslætti. Höfuðverknum fylgja oft ógleði og uppköst og sjúklingurinn leitar gjarnan í kyrrð og rökkur. Kastið getur staðið frá nokkrum klukkustundum upp í heilan dag eða lengur. Sjaldgæfara afbrigði mígrenis getur valdið tímabundnum sjóntruflunum, kvíða, þreytu og ruglingi á hugsunum, sem varir venjulega aðeins í stuttan tíma, en lýsir sér að öðru leiti svipað venjulegu mígreni.1, 2

Orsakir

Deildar meiningar hafa verið um orsakir mígrenis og enn þekkja menn þær ekki að ráði. Hafa sumir hallast að því að sjúkdómurinn sé í ætt við flogaköst og eigi upptök sín í taugavef heilans, en aðrir tengja hann einkum við það, þegar æðar í höfðinu þenjast út eða dragast saman sem vitað er að gerist á meðan á mígreniköstum stendur. Trúlega eru það þó mismunandi samverkandi þættir sem leysa köstin úr læðingi. Algengt er að streita, örþreyta, hormónabreytingar og matvæli eins og mjólk, egg, skelfiskur, ostur, súkkulaði, jarðhnetur og hveiti, einnig reykingar og áfengisneysla, geta valdið mígrenikasti. En hjá mörgum þarf ekkert slíkt til og ekki hægt að benda á neitt sérstakt sem kemur kastinu af stað.1, 2

Almennar leiðbeiningar

Erfitt er að gefa neinn sérstakan leiðarvísi annan en að forðast þær fæðutegundir og annað það sem reynst hefur koma mígrenikasti af stað. Eftirfarandi efni eru þekkt fyrir geta valdið köstum:

 • tyramin (er í jógúrt, banönum, fíkjum, fersku brauði, rauðvíni, ostum og sumum baunum)
 • phenylethylamines (er í súkkulaði)
 • nítröt (eru í saltkjöti, geta verið pylsum, bjúgum og öðrum unnum kjötvörum)
 • monosodium glutamate (þekkt sem þriðja kryddið eða msg, einnig skilgreint sem Exx á unnum matvörum, er í svo til öllum kjötkrafti og súputeningum, mörgum unnum kjötvörum, snakki svo sem kartöfluflögum, flestum kínamat, mjörgum sósum og öðrum unnum matvörum)
 • aspartame (NutraSweet)
 • histamine (er í rauðvíni, súkkulaði, ostum og bjór)1, 2

Bætiefni

Þar sem raunorsakir mígrenis eru ekki kunnar og margir ólíkir þættir geta komið kasti af stað, hefur ekki fundist nein endanleg lausn, hvorki í almennri læknisfræði né í hinni óhefðbundnu. Engu að síður hafa nokkur bætiefni gagnast afar mörgum mígrenisjúklingum og rannsóknir renna stoðum undir ágæti sumra þessara efna gegn sjúkdómnum.

Magnesíum

Sýnt hefur verið fram á að samband er á milli magnesíummagns í líkamanum og þess lífeðlisfræðilega ferlis sem liggur á bak við mígreniköst. Árið 1995 var gerð rannsókn sem bar hóp af fólki með mígreni saman við hliðstæðan hóp af fólki sem ekki hafði sjúkdóminn. Í ljós kom að mígrenisjúklingarnir höfðu greinilega minna af magnesíum í rauðu blóðkornunum en hinir.3 Í annarri rannsókn kom í ljós að magn magnesíums í mígrenisjúklingum á meðan á kasti stóð, var lægra en hjá hliðstæðum einstaklingum sem ekki höfðu mígreni.4 Vitað er að magnesíum hefur áhrif á samdrátt og þenslu æða. Einnig hafa breytingar á magni magnesíums verið tengdar öðrum þáttum mígrenis.4, 5 Þessar og fleiri hliðstæðar vísbendingar renna stoðum undir ágæti þess að mígrenisjúklingar prófi að taka magnesíum. Tvær nýlegar tvíblind- rannsóknir með magnesíum gáfu þó sitt hvora niðurstöðuna. Önnur, þar sem um helmingi 69 sjúklingum voru gefin 500 mg daglega og hinum helmingnum lyfleysu í 12 vikur, sýndi engan árangur.6 Hin rannsóknin, þar sem 81 sjúklingur voru til meðferðar á sama hátt, sýndi verulegan bata hjá þeim sem fengu magnesíum umfram hina.7  Magnesíum bundið sítrati, malati eða aspartati frásogast betur en magnesíum súlfat, hýdroxíð eða oxíð sem geta í stórum skömmtum valdið niðurgangi.

Glitbrá (e: Feverfew, lat: Tanacetum parthenium)

Sennilega er glitbrá sú jurt sem mest er notuð til að fyrirbyggja mígreni. Fyrir nokkrum árum var grein í íslensku tímariti um jurtina og viðtal við konu sem losnaði við mígreni með því að nota hana. Upphaflega vakti hún verulega athygli þegar 70 % af 270 mígrenisjúklingum sem höfðu notað hana daglega í lengri tíma, fengu
verulega bata. Bæði fækkaði köstum til mikilla muna og einnig voru þau köst sem komu mildari. Margir sjúklinganna höfðu engan bata fengið af venjulegum mígrenilyfjum. Fyrsta tvíblinda rannsóknin átti sér stað við London Migraine Clinic og önnur nokkru síðar við háskólann í Nottingham. Báðar sýndu þessar rannsóknir afdráttarlausan bata hjá þeim sem notuðu glitbrána.8, 9

Hrossafífill (e:butterbur, lat: Petasites hybridus)

Þessi jurt var reynd á 60 manns sem fengu 3-10 mígreniköst á mánuði. Eftir 4 vikur án nokkurra lyfja, fékk helmingur sjúklinganna 50 mg tvisvar sinnum daglega en hinn helmingurinn lyfleysu. Árangurinn var jákvæður, 3 af hverjum 4 sem tóku jurtina fengu verulegan bata en aðeins 1 af 4 þeirra sem fengu lyfleysu. Bæði fækkaði köstum og þau köst sem komu voru ekki jafn slæm og fyrr. Ekki varð vart við neinar aukaverkanir.10 Vörutegundin sem notuð var í þessari tilraun fæst hérlendis undir nafninu Petaforce. Það
skal tekið fram að jurtin sjálf inniheldur eitraða alkalóíða, pyrrolizidin, en að sjálfsögðu eru þeir fjarlægðir úr henni áður en hún er unnin til notkunar í bætiefni eins og Petaforce.

Lýsi og ómega 3 fitusýrur

Rannsóknir sem gerðar voru 1985 og 1986 bentu til að notkun ómega 3 fitusýra (þær eru unnar úr lýsi) geti gagnast við mígreni.11, 12  Sambandið á milli aukins magns þessara fitusýra og mígrenis hefur því miður ekki
verið rannsakað að neinu gagni frekar, en vísindamenn hafa bent á hugsanlegt mikilvægi þeirra í tengslum við efnaskipti sem geta haft áhrif á sjúkdóminn.

Vítamin B-2 (Ríbóflavín)

Samkvæmt 3ja mánaða tvíblindri rannsókn sem 55 mígrenisjúklingar tóku þátt í, getur inntaka af stórum skammti af B-2 vítamíni (400 mg á dag), dregið verulega úr fjölda mígrenikasta og stytt þau. Hjá flestum
fækkaði köstum um helming.2 Í annarri rannsókn þar sem sami skammtur var gefinn 49 sjúklingum, einnig í 3 mánuði, fékkst jafnvel enn betri niðurstaða.13

Heimildir:

 1. Encyclopedia of Natural Medicine by Michael Murray, N.D. and Joseph Pizzorno N.D., Revised 2nd Edition 1998, Prima Publishing.
 2. http://www.consumerlab.com/
 3. Mazzotta G, et al. Electromyographical ischemic test and intracellular and extracellular magnesium
  concentration in migraine and tension type headache patients. Headache. 1996;36:357-361.
 4. Ramadan N, et al. Low brain magnesium in migraine. Headache. 1989;29:590-593
 5. Swanson D. Migraine and magnesium: eleven neglected connections. Perspect Biol Med. 1988;31:526-557.
 6. Pfaffenrath V, et al. Magnesium in the prophylaxis of migraine: a double-blind placebo-controlled study. Cephalagia. 1996;16:436-440.
 7. Peikert A, et al. Prophylaxis of migraine with oral magnesium: results from a prospective,
  multi-center, placebo-controlled and double-blind randomized study. Cephalagia. 1996;16:257-263.
 8. Johnson E, et al. Efficacy of feverfew as prophylactic treatment of migraine. BMJ. 1985;291:569-573.
 9. Murphy J, et al. Randomized double-blind placebo-controlled trial of feverfew in migraine prevention. Lancet. 1988;2(8604):189-192.
 10. Degenring F.H., Bommer S., Migräneprophylaxe mit Petadolor N. Schweiz. Zeitschrift GanzheitsMedizin 1995 ; 7 (7/8) : 365-370.
 11. Glueck C, et al. Amelioration of severe migraine with omega-3 fatty acids: a double-blind placebo-controlled clinical trial [Abstract]. Am J Clin Nutr. 1986;43:710.
 12. McCarren T, et al. Amelioration of severe migraine by fish oil (w-3) fatty acids [Abstract]. Am J Clin Nutr. 1985;41:874a.
 13. J. Schoenen, M. Lenaerts and E. Bastings, „High-Dose Riboflavin as a Prophylactic Treatment of Migraine: Results of an Open Pilot Study.“ Cephalagia 14 (1994) 328-9.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.