B-6 vítamín / pýridoxín

Pýridoxín eða vítamín B-6 er vatnsleysanlegt. Það er mikilvægt við efnaskipti fitu og próteins og fyrir myndun adrenalíns og serótóníns. Skortur á serótóníni er oft tengdur þunglyndi og örum skapbreytingum. Tíðaverkir geta t.d. orsakast af slíkum skorti, enda sýna margar rannsóknir fram á gagnsemi B-6 vítamíns gegn tíðaverkjum.

B-6 er nauðsynlegt fyrir starfsemi lifrar og myndun tauga- og boðefna, það er því mikilvægt fyrir starfsemi heila og vöðva. B-6 hjálpar til við að halda jafnvægi á milli natríums og kalíums í líkamanum, en þessi efni sjá m. a. um að halda vökva líkamans í réttu horfi. Það er einnig mikilvægt til framleiðslu mótefna gegn innrás sýkla. Nægilegt magn af B-6 í líkamanum getur dregið úr hættu á húðsjúkdómum, getur t.d. gagnast gegn gelgjubólum. Líkaminn þarfnast B-6 til blóðmyndunar og til að nýta B-12 vítamín.

Mikil neysla próteini eykur þörf á B-6 vítamíni. Það virðist virka betur með öðrum B-vítamínum og er stundum notað með sinki og magnesíum, sem eru náttúrulegir félagar þess í margri starfsemi líkamans. Einkenni um skort eru m.a. ofþreyta, truflun á starfsemi miðtaugakerfis og húðar, ónóg blóðmyndun, tannskemmdir og beingisnun.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

 • ungbörn að hálfs árs aldri: 0,3 mg
 • ungbörn hálfs-eins árs: 0,5 mg
 • 1-3 ára: 0,8 mg
 • 4-6 ára: 0,9 mg
 • 7-10 ára: 1,1 mg
 • karlar að 75 ára aldri: 1,3-1,5 mg
 • karlar 76 ára og eldri: 1,2 mg
 • konur að sextugu: 1,2 mg
 • konur 61 árs og eldri: 1,1 mg
 • þungaðar konur: 1,4 mg
 • konur með barn á brjósti: 1,5 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.