A-vítamín

A-vítamín er fituleysanlegt og tengist margri starfsemi líkamans. Það er mikilvægt fyrir heilbrigða sjón, einnig fyrir alla slímhúð jafnt í öndunarfærum, kynfærum og meltingarvegi. A-vítamín er andoxandi eins og C- og E-vítamín, selen, sínk og glútaþíon. Þessi efni eru talin sporna gegn öldrun vegna þess að þau vernda frumurnar gegn eyðileggjandi áhrifum sindurefna. Þegar epli er skorið verður það brúnt í sárið. Járn ryðgar. Þessu veldur oxun af völdum súrefnis. Við efnaskipti í líkamanum myndast úrgangsefni (svo nefnd sindurefni) sem geta valdið hliðstæðum skemmdum á frumum líkamans. Ótal aðrir þættir eru síðan samverkandi sindurefnunum í þessari eyðileggingu, svo sem reykingar, áfengi, streita, bakteríur, vírusar og umhverfismengun.

Hver fruma líkamans er varin með himnu sem inniheldur m. a. hátt fituhlutfall. Sindurefnin valda því að þessi fita oxast og veikir það frumuna. Rannsóknir benda til að slíkar frumuskemmdir geti skaðað heilsuna. Líkaminn getur varist þessum skemmdum með svonefndum andoxunarefnum. Það eru ákveðin bætiefni, vítamín og steinefni sem ráðast til atlögu gegn skaðvöldunum (sindurefnunum) og aðstoða líkamann að losa sig við þá. Jafnframt styrkja þessi andoxunarefni frumurnar og um leið varnir líkamans.

Þar sem A-vítamín er fituleysanlegt safnast það fyrir í líkamanum og getur valdið eitrun sé tekið of mikið af því. Stærri dagsskamtar en 9000 µg/30.000 ae yfir lengri tíma geta valdið aukaverkunum. Öllu öruggari leið til að fá A-vítamín er að nota Beta karotín (svonefnt próvítamín A) sem líkaminn breytir í A-vítamín eftir þörfum og nýtir sem slíkt. Af Beta karotíni er ekki sama eitrunarhætta og af A-vítamíni.

Auðugasta uppspretta A-vítamíns er lýsi en aðrar góðar fæðutegundir eru lifur, egg, gulrætur, næpur, spínat, fíflablöð, mynta og steinselja, einnig mjólk og mjólkurafurðir. Skortur kemur fyrst fram í náttblindu, þurri slímhúð og aukinni sýkingarhættu.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • 0-3 ára: 400 µg/1330 ae
  • 4-6 ára: 500 µg/1670 ae
  • 7-10 ára: 700 µg/ 2330 ae
  • karlar 11 ára og eldri: 900 µg/3000 ae
  • konur 11 ára og eldri: 800 µg/2670 ae
  • þungaðar konur: 800 µg/2670 ae
  • konur með barn á brjósti: 1200 µg/4000 ae

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.