Lútein

Lútein er andoxunarefni sem verndar frumur líkamans gegn skemmdum af völdum sindurefna, en það eru skaðleg náttúruleg efni sem ráðast á frumurnar og valda þeim tjóni.

Nýlegar rannsóknir benda til þess að lútein geti gegnt mikilvægu hlutverki í verndun augna og sjónar. Það virkar með tvennum hætti: í fyrsta lagi er það eins konar náttúruleg sólvörn fyrir augun og í öðru lagi kemur það í veg fyrir skemmdir sem sindurefni geta valdið auganu.

Þær matvörur sem mest innihalda af lúteini eru grænt grænmeti, einkum spínat, salat, grænkál, púrra og grænar baunir.

Sjóndepurð og æðakölkun

Sjóndepurð hjá eldra fólki má einkum rekja til tveggja augnsjúkdóma, en það eru sjónudepilsrýrnun (hrörnun sjónubotna) og augndrer (ský á auga). Lútein er talið geta spornað við þróun beggja þessara sjúkdóma.

Sjón er ferli þar sem m.a. ljós fer í gegnum augasteininn á augnhimnu, þunnan vef sem fóðrar bakhluta augans. Miðdepill augnhimnunnar, sjónnæmasta svæði augans sem nefndur er sjónudepill, fær mest af ljósinu sem inn í augað fer. Hrörnun sjónudepla orsakast af sköddun þeirra og leiðir til alvarlegrar sjónskerðingar. Ein algengasta orsök sjónudepilsrýrnunar eru skemmdir af völdum sólarljóss, þ.e. mikillar birtu á þessa viðkvæmu vefi. Lútein er helsta litarefnið (pigment) í þessum hluta augnhimnunnar og virðist þjóna sem náttúrleg sólvörn fyrir augað, hefti aðgang sólarljóss að sjónhimnu og geti þannig verndað sjónudepilinn.

Auk þess að vernda hann getur lútein líka verndað augasteininn fyrir skemmdum af völdum sterkrar birtu og þannig dregið úr þróun augndrers.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.