B-12 vítamín / sýanókóbalamín

Vítamín B-12 eða kóbalamín er vatnsleysanlegt. Stöðugasta form þess er sýanókóbalamín, sem notað er í B-12 bætiefni. Það er nauðsynlegt fyrir heilbrigðan vöxt (frumuskiptingu), kjarnsýruhvörf og heilbrigði tauga, húðar og slímhúðar, einnig mikilvægt fyrir eðlilega blóðmyndun. B-12 er nauðsynlegt fyrir efnaskipti prótína, fitu og kolvetna. Það er sem fyrr segir nauðsynlegt fyrir allan frumuvöxt, sérstaklega í meltingarfærum, beinmerg og taugavefjum. C-vítamín, B-6 og önnur B-vítamín auka frásog þess, einnig kalíum og natríum.

Fæðutegundir sem eru auðugar af B-12 eru m. a. lifur, nýru, eggjarauða, fiskur og magurt kjöt. Það er óalgengt í jurtaafurðum, en spirulina þörungurinn er þó auðugur af þessu vítamíni. B-12 þolir illa hita og skemmist við suðu, einnig draga tóbak, áfengi, kaffi og ýmis lyf úr frásogi sem og skortur á járni og B-6. Frásog þess virðist jafnframt minnka með aldrinum.

Einkenni um skort: Þar sem B-12 er mikilvægt fyrir frumuskiptingu gætir skorts fyrst þar sem frumuskipting er örust t.d. í blóði. Skortur veldur því blóðleysi. Fækkun rauðra blóðkorna kemur fram í aukinni þreytu og við fækkun hvítra blóðkorna eykst sýkingarhætta. Einnig getur skortur dregið úr storknun blóðs og orsakað tíðari marbletti, líka valdið hrörnun taugafrumna og skertri hreyfigetu útlima, minnistapi, sjóntruflunum og ruglaðri hugsun. Þar sem grænmeti er mjög snautt af B-12 er þeim sem einungis neyta grænmetis ráðlagt gefa þessu vítamín sérstakan gaum. Sú jurt sem er hvað auðugust af B-12 er spirulina.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að hálfs árs aldri: 0,3 mcg
  • 6-12 mánaða: 0,6 mcg
  • 1-3 ára: 1 mcg
  • 4-6 ára: 1,1 mcg
  • 7-10 ára: 1,4 mcg
  • 11 ára og eldri: 2 mcg
  • konur á meðgöngu: 2 mcg
  • konur með barn á brjósti: 2,6 mcg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.