Aloe vera

Þessi merkilega planta er sennilega þekktust fyrir græðandi eiginleika sína og er mikið notuð í snyrti- og hárvörur. Meira en 200 tegundir eru til af aloe vera plöntunni sem upprunalega kemur frá Afríku en vex nú um allan heim á þurrum svæðum. Hún hefur engan stöngul og er því í raun bara blöð sem eru löng, þykk og græn með oddum á köntunum.

Aloe vera er afar græðandi, rakagefandi og mýkjandi. Hún er getur reynst vel við bruna m.a. sólbruna en er einnig góð á sár, skordýrabit, bólur, roða í húð, exem og psoriasis. Vegna rakagefandi eiginleika sinna er hún góð fyrir þurra húð. Fólk með feita húð sem á erfitt með að nota hvers kyns snyrtivörur hefur notað aloe vera með góðum árangri. Ekki er að fullu vitað hvaða efni það eru nákvæmlega sem hafa þessi græðandi áhrif á húðina. Tilraunir á rannsóknarstofum benda til að það séu fjölsykrur sem hafi þessa bólgueyðandi og ónæmisstyrkjandi eiginleika. Eins getur verið að fjölbreytt bætiefnasamsetning aloe vera plöntunnar sé hennar mesti styrkleiki en í henni eru amínósýrur, E- og C-vítamín, sink og fitusýrur.

Til eru hylki og safar úr aloe vera sem henta til inntöku en innvortis getur aloe vera einnig verið gagnleg. Hún hefur jafnvel reynst góð við magasárum, harðlífi, gyllinæð, kláða í endaþarmi og ristilbólgum. Best er að nota 98-99% aloe vera safa. Tekin með psyllium trefjum er aloe vera mjög góð sem ristilhreinsir og hentar sérstaklega vel þeim sem eru með fæðuofnæmi og ristilvandamál. Munið að drekka mikinn vökva þegar teknar eru inn trefjar. Aloe vera getur ekki aðeins grætt þarmaveggina heldur örvað einnig meltinguna.

Virku efnin í aloe vera sem örva meltinguna kallast anthraquinone sykrur. Þau tvístrast þegar þau komast í snertingu við bakteríuflóru þarmanna. Við það myndast nýjar sameindir, aglycones, en það eru þær sem örva meltinguna. Ekki er mælt með að taka inn aloe vera að staðaldri þar sem líkaminn getur myndað ónæmi fyrir jurtinni eins og svo mörgu öðru. Eins skal stöðva inntöku á aloe vera ef viðkomandi fær niðurgang.

Fólk með Crohn´s sjúkdóm eða colitis ulcerosa ætti ekki að taka inn aloe vera. Eins og með margar aðrar mjög virkar jurtir er ekki mælt með að smábörn, barnshafandi konur og konur með börn á brjósti taki inn aloe vera. Útvortis notkun er hins vegar í góðu lagi.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.