Betri heilsa og innihaldsríkara líf

Sölvi Tryggvason

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason breytti algerlega um lífsstíl í leit að betri heilsu og auknum lífsgæðum. Í byrjun ársins gaf Sölvi út bókina Á eigin skinni en hún fjallar um leið hans til heilsu á ný og þær fjölbreytilegu tilraunir sem hann gerði á eigin skinni.

Síðustu mánuðir hafa verið mjög annasamir hjá þér, hvað ertu búinn að vera gera?
Eftir að bókin mín, Á eigin skinni, kom út í janúar hef ég verið á fullu við að vinna með efnið úr henni. Að baki bókinni er margra ára vinna og planið er að halda áfram að vinna með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum, í því að bæta heilsu fólks og draga úr streitu. Ég hef haldið í kringum 80 fyrirlestra og námskeið á árinu fyrir rúmlega 4 þúsund manns. Þannig að þetta er búin að vera talsverð törn og ég hef þurft að fara eftir mínum eigin ráðum til að halda mér í góðu standi. Ég hef tekið svefninn mjög heilagan, enda er hann fyrir mér mögulega mikilvægasta, einstaka, atriðið þegar kemur að heilsu. Fyrir mig er lykilatriðið að vera ekki að hanga vakandi of lengi og ná helst alltaf 8 tímum, sérstaklega ef ég er að æfa mikið. Ég reyni líka að komast út í náttúruna, alltaf þegar færi gefst, og held mér við ákveðin grunnatriði í næringu þó að hún sé alls ekki fullkomin. Reyni að fasta flesta daga í minnst 12 tíma og að halda mig sem allra mest við náttúrulega fæðu.
Hreyfingin dettur líka aldrei út. Því meira álagi sem ég er undir í vinnu því mikilvægara er að hreyfa sig sem oftast. En að sama skapi held ég æfingum með allra harkalegustu keyrslunni í lágmarki þegar álagið er mikið. Sem sagt hreyfi mig mjög oft en set ónæmiskerfið ekki á yfirsnúning á svona tímabilum. En síðan þegar það er minna álag í vinnu breyti ég um takt og læt reyna meira á kerfið í æfingum. Famundan er að þróa enn betur módelið mitt í kringum þetta og vonandi verður áfram áhugi á að nota krafta mína í þessu sem víðast.

Hvað með bætiefni, tekur þú mikið af þeim?

Þau bætiefni sem ég tek nánast alltaf eru D-vítamín, magnesíum og omega 3. Í mínum huga eru það þau efni sem eru mikilvægust fyrir mig. Svo tek ég B12, C-vítamín og sitthvað fleira í skorpum á mismunandi tímabilum, og tek þá jafnvel stóra skammta og hvíli svo alveg á milli.

Nú eru margir að huga að matarræðinu, að taka sig á eftir sumarið, hvað myndir þú segja að væri mikilvægast?

Ég myndi segja að mikilvægast væri að byrja nógu raunhæft ef fólk ætlar að gera breytingar. Stóru breytingarnar eru litlir vanar sem maður nær að standa við. Ef við breytum einum hlut í einu, og stöndum við það, líður ekki langur tími þar til lífstíllinn er orðinn miklu betri. Það er ekkert eitt sem virkar fyrir alla. En í stóru myndinni snýst þetta um að borða sem mest af raunverulegum mat, mat sem skemmist, áður en hann skemmist; sem stystar innihaldslýsingar og sem ferskast. Mikið af grænmeti, mikið af hollum fitum og óunnum matvælum.

Hvernig höldum við orkunni yfir daginn? Og af hverju dettur hún svo oft niður um miðjan dag?

Algengustu ástæðurnar fyrir því að orkan dettur oft niður um miðjan daginn eru að mínu mati tvær, hreyfingarleysi og of mikið kolvetnaát fyrri part dags. Ef fólk vinnur kyrrsetuvinnu er mjög mikilvægt að brjóta hana upp sem allra oftast, þó ekki sé nema bara til að gera nokkrar teygjur, fá blóðflæðið af stað og virkja líkamann örlítið. Varðandi mataræðið hefur það reynst mér mjög vel að halda mig við annað hvort föstu eða mjög létt fæði vel fram eftir degi, þegar ég vil að hausinn sé skarpur.

Getum við gert eitthvað til að koma í veg fyrir sykurlöngun?

Já, borða meira af næringarríkum mat og sérstaklega hollum fitum. Í stað þess að rembast við að halda sig frá óhollum mat er mun skilvirkara að borða sem best af verulega næringarríkum mat, og þá hættir líkaminn smátt og smátt að öskra á sykur í tíma og ótíma.

Skiptir máli að skipuleggja daginn með tilliti til matarræðis, að borða í rólegheitum?

Það er mjög margt sem bendir til þess að þaðað gefa sér tíma í að borða sé gríðarlega mikilvægt atriði. Bæði nýtur maður matarins betur, meltingin verður betri og það dregur úr líkum á því að maður sé að sturta í sig óhollum mat í stresskasti, sem er oftast stærsti ósiðurinn þegar kemur að matarræði nútímamannsins.

Hvaða matvöru gætir þú ekki verið án?

Ég er mjög hrifinn af villtum fiski og eggjum úr frjálsum hænum, úr jurtaríkinu væri það 100% kakó og avacadó.

Getur þú gefið okkur dæmi um mataræðið hjá þér, einn dag?

Venjulegur dagur væri yfirleitt eitthvað í þessum dúr:
  • Morgunmatur; Bulletproof kaffi og grænn djús.
  • Hádegismatur; fiskur, grænmeti og brún grjón eða sætar kartöflur.
  • Yfir daginn; möndlur, hrökkbrauð með Whole Earth hnetusmjöri, eða eitthvað annað sem ftar ekki of mikið blóðsykrinum.
  • Kvöldmatur; góður fiskur eða kjöt með grænmeti, salati og góðum kolvetnum. Hér á ég það til að borða eitthvað sem er ekki 100% en ef dagurinn er búinn að vera í lagi þá er ég ekki að stressa mig á því.

Ég á það til að gefa Bulletproof kaffinu ‚upgrade‘ ef ég vil fá aukna orku, en þá nota ég eina skeið af Golden Ghee (skýrt smjör), eina skeið af Whole Earth hnetusmjöri og eina skeið af Manuka hunangi. Þessu negli ég svo í blandarann með einhverju úrvals kaffi.

 

  • Bætaefnalínurnar frá Terranova og Gula miðanum fast í apótekum, stórmörkuðum og heilsuvörurverslunum. Þær fast einnig í netverslun Nettó (www.netto.is), Heimkaupa (www.heimkaup.is), Heilsuhússins (www.heilsuhusid.is) og Lyfju (www.netverslun.lyfja.is).
  • Whole Earth hnetusmjörin fast í öllum helstu stórmörkuðum og heilsuvöruverslunum.