Vegan ris a la mande, gómsæt útgáfa af hinum fræga jólamöndlugraut

Hvort sem þú ert vegan, þarft að forðast mjólkurvörur eða langar bara að prófa nýja uppskrift af hinum klassíska ris a la mande er þessi málið. Margir hafa þá hefð að borða jólamöndlugraut eða ris a la mande í hádeginu á aðfangadag. Möndlugjöfin er auðvitað sívinsæl. Ekki mikla þetta fyrir þér, þetta er einfaldara en þú heldur og uppskeran alveg sérlega bragðgóð.

Þessi kemur úr Vegan-uppskriftasmiðju Reykjavegan

Innihald:

  • 1 dl vatn
  • 2,25 dl grautargrjón (t.d. arborio)
  • 1 L Ecomil möndlumjólk
  • 1 vanillustöng frá Sonnentor
  • 1 & 1/2 ferna Ecomil möndlurjómi
  • 1 ferna þeytanlegur sojarjómi
  • 100 gr hakkaðar möndlur
  • Ristaðar möndlur eða möndluflögur til skrauts (má sleppa)
  • 1 ferna tilbúin kirsuberjasósa

Aðferð:

  • Vatn og hrísgrjón soðin upp í smá stund (fylgist með allan tímann svo ekki brenni við eða sjóði uppúr)
  • Þegar vatnið er farið að sjóða má byrja að bæta möndlumjólkinni saman við, 1-dl í senn á meðan þú hrærir stöðugt í
  • Nú má kljúfa vanillustöngina og leyfa henni að malla með
  • Láttu grautinn malla á frekar lágum hita í 35-40 mínútur og passaðu að hræra reglulega í svo hann brenni ekki við
  • Þegar grauturinn er fullsoðinn skaltu taka vanillu stöngina uppúr, skafa fræin innan úr og hræra þau saman við grautinn
  • Nú þarf að kæla grautinn, best er að láta hann bíða í ísskáp yfir nótt til að borða daginn eftir
  • Stuttu áður en þú ætlar að bera grautinn fram skaltu taka hann út og:
    • Þeyta sojarjómann og hræra hann ásamt hökkuðum möndlum saman við grautinn
    • Bera fram með ristuðu möndlunum og kirsuberjasósunni.

Njótið vel!