Vegan og glútenlaus gulrótarkaka

Þessi er alveg guðdómleg og kemur úr smiðju Önnu Guðnýjar hjá Heilsa og vellíðan. Ef þú hefur verið að leita að hinni fullkomnu uppskrift af vegan gulrótarköku þarftu ekki að leita lengra.

Uppskriftin er einföld en lestu leiðbeiningarnar vel svo allt gangi örugglega upp! Þessi uppskrift er stór, dugar í þrjá hringlaga botna til að gera þriggja laga köku! Ef þú vilt tvær hæðir deilir þú einfaldlega með tveimur og ef þú vilt einn botn deilir þú með þremur 🙂

Innihald:

3 botnar, formin eru 21 cm í þvermál.

  • 500 g gulrætur
  • 300 g haframjöl
  • 300 g möndlumjöl
  • 100 g kókospálmasykur
  • 4 msk chia fræ + 8 msk vatn
  • 150 g eplamauk
  • 150 g kókosjógúrt
  • 9 msk kókosolía
  • 300 g döðlur
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 3 tsk matarsódi
  • 3 tsk eplaedik
  • 2-3 msk kanill
  • 2 tsk gróft salt
  1. Byrjaðu á því að rífa niður gulræturnar og settu þær í skál með 1/2 tsk salti. Nuddaðu þær aðeins og settu þær svo til hliðar. Þetta skref er til þess að sem mestur vökvinn fari úr gulrótunum svo kakan verði ekki of blaut.
  2. Næst malar þú niður haframjöl í kaffikvörn eða matvinnsluvél. Settu svo malaða haframjölið og hin þurrefnin saman í matvinnsluvél.
  3. Malaðu chiafræ í kaffikvörn og hrærðu vatninu saman við þau. Bættu chiagelinu út í matvinnsluvélina ásamt hinum blautefnunum.
  4. Settu svo döðlurnar út í og láttu matvinnsluvélina vinna þar til að myndast hefur kekkjalaust deig. Settu deigið svo í stóra skál.
  5. Taktu nú rifnu gulræturnar og kreistu vökvan úr þeim. Taktu lítinn skammt í einu í hendina og kreistu sem mestan vökva úr þeim áður en þú hrærir þeim varlega saman við deigið með sleif. Skiptu svo deiginu í 3 form og bakaðu í 40 mín við 180°C.

Karamellukrem

  • 2 x dollur af koko rjómaosti (vegan)
  • 230 g kókosfeiti
    (þykki parturinn af kókosmjólk, gott að láta hana standa í ísskáp yfir nótt eða í frysti í 2-3 klst)
  • 1 msk hlynsíróp
  • 90 g kókospálmasykur, malaður
  • 1 tsk vanilluduft
  • 1/2 tsk salt
  1. Byrjaðu á því að mala kókospálmasykurinn í kaffikvörn
  2. Bættu síðan öllum innihaldsefnunum saman í blandara/matvinnsluvél þar til kekkjalaust.
  3. Kældu kremið í ísskáp í 2 klst.
  4. Settu kremið á kökuna þegar að botnarnir hafa kólnað alveg.

Hér er kaffikvörn notuð töluvert til að mala fræ og annað. Þetta er eldhústæki sem er mjög sniðugt að eiga þegar þú vinnur mikið með heilfæði og smáar einingar sem þarf að mala í fínt mjöl eins og fræ og krydd. Hægt er að fá ódýrar kaffikvarnir í raftækjaverslunum sem endast vel.

 

Uppskrift og myndir eru sköpun og eign Önnu Guðnýjar Torfadóttur. Hvorugt má afrita eða birta opinberlega nema með hennar leyfi.