Vegan Karamellubomba

Anna Guðný hjá Heilsa og vellíðan er snillingur í að skapa gómsætar kökur sem eru bæði hollar og góðar. Þessi er alveg sérstaklega mjúk og karamellubragðið er eitthvað sem enginn stenst. Frábær á hvaða veisluborð sem er eða bara með kaffinu þegar þig langar í eitthvað sætt án þess að eiga hættu á blóðsykurssveiflum og vanlíðan.

Kökuna má geyma í frysti, sniðugt að búa til þegar þú hefur tíma og eiga til þegar á þarf að halda.

Kakan er vegan eins og allt sem Anna Guðný skapar.

Botninn:

  • 100 gr heslihnetur, ristaðar
  • 4 dl haframjöl, malað
  • ½ dl kókosolía
  • 2 msk möndlusmjör
  • 3 msk kókospálmasykur
  • 1/3 tsk vanilluduft
  • ¼ tsk gróft salt
  1. Ristaðu heslihnetur í ofni við 150°C í 12 mínútur
  2. Malaðu haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það er orðið að mjöli
  3. Blandaðu nú öllum hráefnum saman í matvinnsluvél
  4. Settu bökunarpappír í hringlaga form og klappaðu botninum létt ofan í formið, ekki þjappa honum fast niður en samt aðeins svo hann verði ekki of laus í sér.
  5. Settu formið í frysti á meðan þú gerir karamellulagið

Karamellulag

  • Þykkni úr 1 kókosmjólkurdós
  • 1,5 dl fínt hnetusmjör
  • 100 gr döðlur sem legið hafa í bleyti
  • ½ tsk vanilluduft
  • 1 dl kókosolía, fljótandi
  • ½ tsk gróft salt
  1. Til að ná þykkninni úr kókosmjólkinni er best að geyma hana í kæli yfir nótt. Svo opnar þú dósina og skefur bara þykka hlutann frá en hellir kókosvatninu af. Það er fínt í þeytinga.
  2. Leggðu döðlur í bleyti yfir nótt eða í sjóðandi vatn í 20-30 mín
  3. Skelltu nú öllu í matvinnsluvél og láttu hana vinna þangað til karamellan er silkimjúk
  4. Taktu 2,5msk af karamellulaginu til hliðar – þú notar það í súkkulaðilagið
  5. Taktu nú botninn úr frysti, dreifðu karamellulaginu yfir og settu formið aftur í frysti

Súkkulaðilag

  • 2,5 msk af karamellulaginu
  • 60 gr kókosþykkni
  • 40 ml döðlusíróp
  • ½ dl kakó
  • ½ dl kókosolía
  • ¼ tsk gróft salt
  1. Settu allt saman í matvinnsluvél og láttu hana vinna þangað til blandan er silkimjúk. Þú getur smakkað hana til og bætt við meira sírópi eða kakó ef þú vilt.
  2. Taktu kökuna úr frysti og dreifðu súkkulaðilaginu yfir. Settu hana svo aftur inn í frysti.
  3. Þegar þú ætlar að bera kökuna fram er best að taka hana út aðeins áður svo hún verði orðin mjúk þegar þú ætlar að njóta hennar. Karamellan er best silkimjúk.