Kjúfú! Kraftaverk úr kjúklingabaunamjöli

Ég elska að uppgötva nýjan mat, nýjar aðferðir í eldhúsinu. Það gerðist einmitt nýlega þegar ég lenti á smá netspjalli við sniðuga konu sem sagði mér frá því sem hún kallaði kjúfú!

Hvað er það spurði ég!?

Jú þetta er svipað og Tófú nema búið til úr kjúklingabaunamjöli! Hún sagði mér hvernig þetta væri gert og mér fannst þetta svo stór merkilegt að ég datt auðvitað í smá netrannsóknir í kjölfarið.

Kjúfú er oftast kallað Burmese Tofu eða Shan tofu. Það er hægt að nota á ýmsa vegu og er tilvalið sem prótínhluti grænmetismáltíða.

Það sem kom mér mikið á óvart var hvað þetta er gott, áferðin góð og hvað þetta getur passað með mörgu. Áferðin er stinn en mjúk og kjúfú er hinn besti svampur fyrir ýmis krydd og marineringar. Ég gæti séð þetta fyrir mér í karríréttum, með steiktu grænmeti, á samlokur, í staðinn fyrir halloumi ost og í staðinn fyrir Tofu hvar sem er. Þetta er líka bara gott sem meðlæti eða létt snarl með góðri sósu eins og hér.

Þetta er eiginlega fullkomið fyrir fólk eins og mig sem finnst tofu ekkert spes.

Það besta er samt að það er sáraeinfalt að búa það til, það er eiginlega ekki hægt að klúðra því og það tekur mjög skamman tíma.

Kjúfú er auðvitað vegan, glútenlaust og sojalaust.

Ég skoðaði alls konar uppskriftir sem allar voru nokkuð keimlíkar en hér aðferðin sem ég notaði.

Kjúfú með sætri chilisósu

Innihald:

Kjúfú:

  • 1 bolli kjúklingabaunamjöl (gram flour) frá Doves farm
  • 2 – 2 1/2 bollar vatn
  • ½ teningur grænmetiskraftur frá Kallo

Marinering og sósa

  • 3msk tamari sósa
  • 2msk ristuð sesamolía
  • 2msk sesamfræ
  • Sweet chili sósa frá Biona

Aðferð:

  • Pískaðu saman kjúklingabaunamjölið og 1 bolla af vatni þar til kekkjalaust
  • Settu 1 bolla af vatni í pott ásamt grænmetistening og láttu suðuna koma upp
  • Helltu kjúklingabaunamjöls blöndunni úr í sjóðandi vatnið og hrærðu í á meðan
  • Lækkaðu hitann niður í meðalhita
  • Blandan þykknar fljótt og þú þarft að hræra stöðugt til að hún brenni ekki við botninn
  • Ef blandan verður of þykk til að hæra getur þú bætt meira vatni við, ég gerði það en bara litlu í einu þangað til blandan verður hræranleg aftur.
  • Eldaðu þessa blöndu í nokkrar mínútur og þegar hún er vel þykk og aðeins farin að loða við botninn er hún klár.
  • Helltu henni strax í eldfast mót sem þú ert búin/n að olíubera eða klæða með bökunarpappír
  • Dreifðu úr henni og sléttaðu toppinn með sleif
  • Leyfðu þessu nú að kólna og stífna í kæli í ca.30 mínútur (má lengur og má gera daginn áður)
  • Þegar kjúfúið hefur kólnað og stífnað getur þú hvolft því úr forminu, skorið í þá bita sem þú kýst og notað að vild.
  • Ég blandaði saman tamari, sesamolíu og sesamfræjum, velti kjúfú bitunum uppúr og bakaði í ofni við 200°C þangað til það var orðið aðeins stökkt, 10-15 mínútur,
  • Svo bar ég það fram með sweet chili sósu og skreytti með smá karsa.

 

Mæli innilega með að prófa þetta, líka hægt að gera stærri skammt og eiga fyrir vikuna í hina ýmsu rétti 😊

Njótið