Um okkur

 

HEILSA

Heilsa ehf. sérhæfir sig í að bjóða vörur sem stuðla að heilsu og velllíðan. Heilsa ehf. er elsta fyrirtæki á Íslandi sem sérhæfir sig í innflutningi og dreifingu á heilsusamlegum og lífrænum matvörum, fæðubótarefnum, almennum og lífrænum snyrtivörum sem og vistvænum hreingerningarvörum. Undanfarin ár hefur bæst mikið við það úrval sem Heilsa býður upp á. Við leggjum mikið upp úr gæðum og leggjum áherslu á að stuðla að heildrænni vellíðan fyrir neytendur hvort sem um ræðir matvörur, vítamín, snyrtivörur, húðvörur eða annað.

Hlutverk Heilsu: Við stuðlum að bættri heilsu almennings. Við vekjum athygli á heilbrigðum og ábyrgum lífsstíl. Við höfum hag neytenda ávallt að leiðarljósi.

STARFSEMIN

Starfsemi Heilsu má skipta í 3 megin þætti:

  • Innflutningur, markaðssetning og dreifing á lífrænni matvöru, fæðubótarefnum og snyrti- hreinlætis– og sérvöru.
  • Fræðsla og upplýsingamiðlun um heilsu og hollustu til fagfólks og almennings.
  • Vöruþróun og framleiðsla á matvælum og fæðubótarefnum.

SAGAN

Fyrirtækið Heilsa var stofnað af einum helsta heilsufrömuði landsins, Erni Svavarssyni fyrir tæpum 40 árum en sagan hófst nánar tiltekið 10. maí 1973 þegar Örn kaupir sendingu af heilsuvörum frá fyrirtækinu Bioforce í Sviss (en Bioforce byggir sína starfsemi á hinum fræga Alfreð Voegel sem er af mörgum talinn vera guðfaðir Sólhattarins). Með þessu má segja að Örn hafi lagt grunninn að stofnun Heilsu þó að í upphafi hafi hann rekið fyrirtækið undir eigin nafni.

Næsta fyrirtæki sem Örn hóf samstarf við var Biotta, en það fyrirtæki var brautryðjandi og er enn leiðandi í framleiðslu á söfum úr lífrænt ræktuðum ávöxtum og grænmeti. Fljótlega fjölgaði birgjunum og viðskiptavinum að sama skapi. Á þessum tíma áttu heilsuvörur nokkuð erfitt uppdráttar, neysla þeirra var ekki orðin almenn og mörgum fannst þetta einkum vörur fyrir sérvitringa.

Smám saman tókst Erni þó að koma vörunum í matvörubúðir og apótek. Í fyrstu voru umsvifin lítil og viðskiptavinirnir tiltölulega fáir en fljótlega fjölgaði þeim og þar með varð sífellt meiri eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins. Heilsa hefur frá upphafi verið brautryðjandi á sínu sviði og síðastliðna fjóra áratugi hafa starfsmenn fyrirtækisins kynnt fyrir Íslendingum margskonar vörur og þjónustu sem tengjast heilsu og hollustu.

Fljótlega eftir stofnun Heilsu var fyrsta heilsubúðin opnuð, Heilsuhúsið á Skólavörðustíg (sem núna stendur við Laugaveg). Með tilkomu verslunarmiðstöðvar Kringlunnar var opnuð glæsileg verslun þar og síðan á Smáratorgi þegar Kópavogurinn tók að hringa sig um Reykjavík. Samhliða smásöluverslun var byggð upp sterk heildsala með samningum við birgja og samstarfsaðila um alla Evrópu, Skandinavíu og Norður – Ameríku. Þessi viðskiptatengsl eru helstu fjöregg fyrirtækisins í dag því Heilsa býr að því að vera með flest af þekktustu vörumerkjum heims í matvörum úr lífrænni ræktun, fæðubótarefnum og vistvænum snyrtivörurm og hreinlætisvörum. Örn rak fyrirtækið til ársins 2005 þegar Lyfja hf. keypti Heilsu og voru þá verslanirnar Heilsuhússins aðskildar frá heildsölunni og í dag er Heilsuhúsið rekið af Lyfju hf.

Heilsa starfrækir í dag innflutning, framleiðslu og dreifingu á miklu úrvali af lífrænt ræktuðum matvörum, vítamínum, hreinlætis- og snyrtivörum. Við erum stolt af því að geta boðið viðskiptavinum okkar mörg af þekktustu og virtustu vörumerkjum heims á þessu sviði og eru vörur fyrirtækisins fáanlegar í öllum apótekum, heilsubúðum og matvöruverslunum landsins. Heilsa stefnir á að vera áfram fremsta fyrirtækið á þessu sviði og einbeita sér að því að þróa lausnir fyrir viðskiptavini sína.