23. ágúst, 2019

Ösp Viðarsdóttir, næringarþerapisti

Áhugi minn á næringu kviknaði þegar ég komst yfir mín eigin heilsufarsvandamál með því að breyta mataræðinu. Áhuginn varð svo til þess að ég lærði næringarþerapíu og hef nú starfað á þessu sviði síðan 2009.

Ég hafði alltaf áhuga á matargerð en var rosalega matvönd sem barn og unglingur. Enginn í fjölskyldunni hefði giskað á að ég myndi velja mér þennan vettvang enda vissi ég ekkert betra en franskar og hamborgarasósu og borðaði bara örfáar tegundir af grænmeti framundir tvítugt.

Ég er því lifandi dæmi um það að allir geta breytt um mataræði og það er aldrei of seint. Ekki halda samt að mataræðið mitt sé alltaf fullkomið. Ég trúi ekki á fullkomnun. Ég borða stundum franskar og á tímabilum fer ég verulega út af sporinu og borða allt of mikinn sykur. Megin atriðið er að vera í jafnvæginu sem oftast, ekki berja sig niður fyrir mistök og njóta án þess að vera alltaf með samviskubit yfir hverjum súkkulaðimola.

Næring skiptir miklu máli fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu. Allir ættu að spá í mataræðið og leggja rækt við heilsuna því við eigum jú bara einn líkama sem þarf að endast okkur alla ævi.

Samt ekki spá of mikið, ekki ofhugsa eða halda að mataræðið þurfi að vera 100% ALLTAF. Jafnvægi er best, öfgar í allar áttir eru yfirleitt mistök.

Hér mun ég deila með ykkur ýmsum fróðleik sem vonandi verður einhverjum að gagni.

Ef þið eruð með ábendingar eða tillögur að umfjöllunarefni endilega sendið mér línu á osp@heilsa.is

Ösp lærði næringarþerapíu við Irish institute of nutrition and health þaðan sem hún útskrifaðist 2013 eftir þriggja ára nám.

Nýjustu greinar Aspar