Breytingarskeið

Nefnd hjá breskum heilbrigðisyfirvöldum sem fjallar um öryggi lyfja hefur gefið út viðvörun við hormónameðferð, þar sem segir að slík meðferð geti aukið hættu á brjóstkrabbameini við langtíma notkun. Nefndin ráðleggur konum yfir fimmtugt að leita annarra leiða til að fyrirbyggja beinþynningu. Nefndin hafnar ekki hormónameðferð fyrir konur undir fimmtugu við þrautum sem tengjast breytingarskeiði, en ráðleggur að nota minnstu skammta og nota meðferðina aðeins í takmarkaðan tíma. Þessi viðvörun kemur í kjölfar stórrar rannsóknar á hormónameðferð sem var slegin af þar sem í ljós kom að hætta á brjóstakrabba jókst við meðferðina.

Þetta eru ekki einu aukaverkanir hormónameðferðar því vísindamenn í Noregi, við Haraldpass sjúkrahúsið og háskólann í Bergen, uppgötvuðu að hormónameðferð getur hugsanlega valdið astma eða ofnæmi í öndunarfærum, m.a. heymæði. Þetta kom fram í rannsókn þar sem 16.190 konur voru fengnar til að svara spurningarlista um heilsufar fyrir 10 árum og sömu konur svo aftur árið 2002. Dr. Cecilie Svanes sem stýrði rannsókninni segir líkindi til að fá astma aukast um 40-50% noti konur hormónameðferð, hættan á ofnæmis astma eykst um 60% og heymæði um 30%.

Breytingarskeið kvenna er ekki sjúkdómur. Þetta er náttúrulegt ferli í ævi þeirra. Fylgikvillar hormónabreytinga þessa skeiðs geta m.a. verið svitaköst, kvíði, þunglyndi og svefnleysi. Mörg þessara einkenna orsakast tvímælalaust af minnkandi hormónaframleiðslu, en aðrir þættir hormónastarfseminnar koma eflaust einnig við sögu.

Ráð Soja ísóflavonóíð

Soja ísóflavonóíð innihalda ísóflavónóíðin Daidzin, Daidzein, Genistin, Genistein, Glycitin og Glyciten. Rannsóknir benda til að ísóflavonóíð minnki hættu á hormóna-tengdum krabbameinum svo sem brjóstakrabbameini og blöðruhálskrabbameini auk annarra krabbameina. Einnig hafa rannsóknir leitt í ljós jákvæð áhrif þeirra til lækkunar á háu kólesteróli. Soja ísóflavonóíð hafa verið notuð með góðum árangri við svitakófum hjá konum á breytingaraldri. Þá er talið að þau virki verndandi fyrir æðar, tempri blóðsykur og styrki bein.

Dong Quai

Jurtin er þekkt í kínverskri læknisfræði fyrir blóðrennslisörvandi eiginleika. Á vesturlöndum er hún mest notuð af konum, þá helst sem styrkjandi jurt vegna vandamála frá móðurlífi. Kínverskir læknar þekkja eiginleika jurtarinnar til að styrkja leg og koma jafnvægi á hormónaefnaskipti kvenna. Mælt er með jurtinni fyrir konur vegna þrauta tengdum breytingarskeiði, einnig til að efla konum þrótt. Jurtina þarf að nota í allt að 6 – 8 vikur, áður en áhrif hennar skila sér til fulls.

Wild Yam

Wild Yam inniheldur jurtaprógesteronlíka hormóna, er því mikið notuð við vandamálum breytingarskeiðsins. Hún er bólgueyðandi og verkjastillandi og gagnast því vel við gigt. Er líka svitaörvandi og vökvalosandi. Þessi jurt er sérstaklega góð við krömpum í maga.

Salvía

Salvía hefur estrogena virkun og hefur því gefist vel við þrautum breytingaskeiðsins.

Náttljósarolía

Fræ þessa blóms eru ein besta náttúrulega uppspretta cis-gamma-línólensýru. Þetta er önnur af tveimur flokkum fitusýra sem eru lífsnauðsynlegar fyrir líkamann, rétt eins og vítamín. Rannsóknir benda til að inntaka náttljósarolíu gagnist konum á breytingarskeiði, m.a. að það bæti nýtingu kalks.

Drottningarhunang (Royal Jelly)

Reynslan hefur sýnt að noktun drottningarhunangs hefur gefist mörgum konum vel við fylgikvillum breytingarskeiðsins.

Vítamín og steinefni

Nauðsynlegt er að tryggja líkamanum nægilegt magn af kalki og magnesíum og einnig er mikilvægt að fá nóg B-6 og E-vítamíni.

Slöngujurt

Nokkrar rannsóknir sýna mjög góðan árangur af notkun þessarar jurtar við þrautum breytingarskeiðsins. Samkvæmt tvíblindri rannsókn sem framkvæmd var í Þýskalandi var slöngujurt jafnvel virkari en estrógen, sérstaklega til að lina þrautir. Einnig kom í ljós við smásjárathuganir að hún virkar einnig vel til að koma frumum í leggöngum í eðlilegt horf. Sömu niðurstöður komu í ljós við aðrar rannsóknir.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.