Meltingartruflanir

Til meltingartruflana teljast ýmis óþægindi í meltingarfærum, eins og þemba, vindgangur, lystarleysi og ógleði. Í raun geta verið ótal ástæður fyrir meltingartruflunum, t.d. óæskilegar matarvenjur, eins og að gleypa í sig matinn, tyggja ekki nægilega, einnig þættir eins og streita. Auk þess getur óþol fyrir ákveðnum fæðutegundum valdið meltingartruflunum. T.d. getur laktósa-(mjólkursykurs-) óþol orsakað óþægindi eins og þembu, krampa og jafnvel niðurgang.

Meltingafæragerlar eins og acidophilus stuðla að heilbrigðri starfsemi meltinarfæranna. Við laktósaóþoli er gott að taka laktasa töflur (sem brjóta niður laktósa) áður en mjólkurvara er neytt. Jurtir eru einnig notaðar við meltingartruflunum, bæði jurtir sem draga úr þembu og vindgangi, auk þess að virka róandi á magann og beiskar jurtir sem bæta meltinguna. Í fyrri hópnum eru m.a. anís, fennel, kúmen, ætihvönn, kamilla, engifer, melissa, túrmerik, lindiblóm, piparmynta og salvía. Rannsóknir hafa sýnt að blanda af olíu úr kúmeni, piparmyntu og fennel hefur reynst mjög vel við meltingartruflunum.1,2 Notaðir eru 3-5 dropar af einni tegundinni eða blöndu af þessum olíum í vatni, tvisvar til þrisvar sinnum á dag. Líka má laga te af muldum fræum kúmens eða fennels, eða af piparmyntulaufi. Kamilla er róandi jurt sem löng hefð er fyrir að nota á bólgur, bæði útvortis og innvortis, m.a. magabólgu. Auk þess örvar hún heilbrigða meltingu. Er þá drukkinn bolli af kamillutei þrisvar til fjóru sinnum daglega. Salvía virkar einnig vel við meltingartruflunum og er t.d. viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum í Þýskalandi við þessum óþægindum.3 Túrmerik inniheldur efni curcumin sem hefur í tvíblindri rannsókn, einnig reynst vel.4

Beiskar jurtir eru m.a. ætiþistill, maríuþistill, títa (boldo), túnfífill og fjallagrös. Þær eru notaðar til að bæta meltinguna með því að örva framleiðslu meltingarvökva, allt frá munnvatni til galls. Þykni úr laufum ætiþistils hafa í tvíblindum endurtekið reynst vel við meltingartruflunum, ekki síst þegar lifrin starfar ekki nógu vel.5,6Árangur af maríuþistli er ekki síðri.

Einnig eru afar virkar tvær græðandi jurtir, sem gefist hafa vel við alls kyns magaóþægindum, en það eru lakkrísrót og regnálmur. Þær eru einnig notaðar við magabólgum, því þær virðast draga úr bólgum og vernda gegn magasýru og öðrum ertandi þáttum í meltingarfærum með því að örva myndun á slími sem hlífir gegn ertandi efnum þeirra.7Þegar notuð er lakkrísrót, eru notaðar DGL (deglycyrrhizenated licorice) töflur, en þá er búið að fjarlægja glyshyrrisín, en það er efni í lakkrísrót sem getur valdið háþrýstingi og vökvauppsöfnun (bjúg) hjá sumum einstaklingum. Venjulega eru teknar 1-2 töflur (500-1000 mg) um 15 mín. fyrir mat og 1-2 tímum áður en gengið er til náða.8 Í regnálmi (enska: Slippery elm) eru fjölsykrur (slím eða gel) sem virðast vernda vélindað fyrir slæmum áhrifum magasýra hjá þeim sem hafa brjóstsviða. Hugsanlega dregur regnálmur einnig úr bólgum í meltingarfærum. Tekin eru 1-2 hylki, 3-4 sinnum daglega.

Silicea Gel gagnast vel við óþægindum í maga og þörmum. Það getur komið að notum m.a. við bólgum í magaslímhúð, niðurgangi og brjóstsviða, því kísilsýran bindur úrgangsefni og hraðar þeim úr líkamanum. Gott er að blanda 1 msk. af gelinu í bolla af t.d. kamillutei eða tei af einhverri ofangreindra jurta.

Síðast en ekki síst skal nefna jurt sem virkar einstaklega vel gegn alls kyns óþægindum í meltingarfærum, en það er aloe vera safi eða gel. Þó ekki liggi á lausu mikið af rannsóknum með aloe vera við meltingartruflunum, er gelið víða ráðlagt gegn þeim og hefur reynst mörgum afar vel. Rétt er að taka fram að gelið er nokkuð hægðalosandi, enda ráðlagt við hægðartregðu. Sumum dugar að taka 1 matskeið af aloe vera geli, hrært í glasi af vatni fyrir svefn, en aðrir taka þennan skammt inn tvisvar til þrisvar á dag. Getur þetta jafnvel dugað til að slá á brjóstsviða þegar óvarlega hefur verið farið í neyslu matar og víns.

Heimildir:

1. May B, Kuntz HD, Kieser M, Kohler S. Efficacy of a fixed peppermint/caraway oil combination in non-ulcer dyspepsia. Arzneim Forsch 1996;46:1149-53.

2. Westphal J, Hörning M, Leonhardt K. Phytotherapy in functional upper abdominal complaints. Results of a clinical study with a preparation of several plants. Phytomedicine 1996;2:285-91.

3. Blumenthal M, Busse WR, Goldberg A, et al. (eds). The Complete German Commission E Monographs: Therapeutic Guide to Herbal Medicines. Austin: American Botanical Council and Boston: Integrative Medicine Communications, 1998:198.

4. Thamlikitkul V, Bunyapraphatsara N, Dechatiwongse T, et al. Randomized double blind study of Curcuma domestica Val. for dyspepsia. J Med Assoc Thai. 1989;72:613-620.

5. Kraft K. Artichoke leaf extract–recent findings reflecting effects on lipid metabolism, liver and gastrointestinal tracts. Phytomedicine 1997;4:370-8 [review].

44. Kirchhoff R, Beckers C, Kirchhoff GM, et al. Increase in choleresis by means of artichoke extract. Phytomedicine 1994;1:107-15.

6. Leung AY, Foster S. Encyclopedia of Common Natural Ingredients Used in Food, Drugs, and Cosmetics, 2d ed. New York: John Wiley and Sons, 1996, 303.

7. Goso Y, Ogata Y, Ishihara K, Hotta K. Effects of traditional herbal medicine on gastric acid. Biochem Physiol 1996;113C:17-21.

8. Reed PI, Davies WA. Controlled trial of a carbenoxolone/alginate antacid combination in reflux oesophagitis. Curr Med Res Opin 1978;5:637-44.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.