Blóðleysi

Blóðleysi getur ýmist stafað af skorti á rauðum blóðkornum eða hemóglóbíni (blóðrauða) í blóðinu. Verði skortur á öðru hvoru, minnkar flutningsgeta blóðfrumnanna á súrefni og veldur þannig súrefnisskorti í öðrum frumum líkamans. Í kjölfar þess tapa frumurnar orku og geta ekki sinnt starfi sínu sem skyldi. Það getur dregið úr eða hindrað eðlilega uppbyggingu vöðva, fyrir utan að valda svima og almennu orkuleysi hjá viðkomandi.

Orsakir

Ein algengasta orsök blóðleysis er járnskortur. Járn er mjög mikilvægur þáttur í framleiðslu á hemóglóbíni sem er það efni sem flytur súrefnið í blóðinu. Skortur á járni getur stafað af lélegu mataræði, miklum (tíða)blæðingum eða því að líkaminn á hreinlega í erfiðleikum með að nýta járn úr fæðunni. Ójafnvægi í hormónakerfinu getur valdið óeðlilega miklum og langvarandi tíðablæðingum hjá konum. Einnig er hætta á miklum blæðingum meiri hjá þeim konum sem nota hettuna eða lykkjuna. Hið sama gildir um fólk sem notar mikið af bólgueyðandi lyfjum s.s. íbúprófen eða aspirín. Ofnotkun þessara lyfja getur valdið ertingu í meltingarvegi og þannig valdið blæðingum þar.

Ýmislegt annað getur valdið blóðleysi, eins og t.d. langvarandi bólgur í líkamanum, aðgerðir, sýkingar, magasár, gyllinæð, ristilpokar, tíðar meðgöngur, lifrarskemmdir, skjaldkirtilssjúkdómar, liðagigt og meðfæddir blóðsjúkdómar. Einnig getur skortur á B-12 valdið blóðleysi en það vítamín þarf líkaminn til að blóðfrumur geti fjölgað sér eðlilega. Ef ekki dugir að taka aukalega inn B-12 bætiefni, gæti viðkomandi þurft að fá sprautu með B-12.

Einkenni

Blóðleysi er yfirleitt ekki eiginlegur sjúkdómur, heldur afleiðing af undirliggjandi vandamáli. Þar sem orsakavaldar blóðleysis eru mjög margir getur reynst erfitt að greina það en helstu einkenni eru svimi, lystarleysi, hægðatregða, höfuðverkur, pirringur, almennt orkuleysi og jafnvel einbeitingarskortur.

Mataræði

Þeir sem eru haldnir blóðleysi ættu að reyna að borða sem fjölbreyttast fæði og þ.á.m. epli, aprikósur, aspas, banana, brokkolí, eggjarauður, baunir, plómur, sveskjur, rúsínur, hýðishrísgrjón og heilkornamat. Lifur er ein járnríkasta fæða sem völ er á en fyrir grænmetisætur er það af augljósum ástæðum ekki fýsilegur kostur.

Mólassi (blackstrap molasses) er hrásykursíróp, mjög járn- og B-vítamínríkt. Við skorti á þessum bætiefnum er mælt með að setja 1 msk í vatnsglas og drekka tvisvar á dag. Einnig má nota hann í stað sykurs.

Neytið í lágmarki fæðu sem inniheldur oxalsýru þar sem hún truflar upptöku járns í líkamanum. Oxalsýru er m.a. að finna í súkkulaði, rabarbara, spínati og flestum hnetum og baunum.

Dragið úr eða sleppið alveg kaffi og tei, þar sem ýmis efni í þeim trufla frásog járns.

Mjólk og mjólkurvörur geta líka dregið úr upptöku járns. Því er best að taka járn aldrei sama tíma og mjólkurvara er neytt.

Bætiefni

Dugi ekki að fá þau næringarefni úr fæðunni sem líkaminn þarf til að vinna á blóðleysi er hægt að taka bætiefni. Náttúrulegar járntöflur eða járnmixtúra geta hjálpað þeim sem eru haldnir járnskorti. Sé notað járn í formi ferrous sukksínats má að mestu eða öllu leyti losna við óþægindi sem járntöflur oft valda.

B-12 og fólínsýra eru nauðsynlegustu B-vítamínin við blóðleysi en yfirleitt er best að taka blöndu með öllum B hópnum eins og hann leggur sig. Þar sem rautt kjöt er ein helsta uppspretta B-12 geta grænmetisætur orðið fyrir skorti á því. Úr jurtaríkinu má fá B-12 úr Spirulina töflum, en að öðru leiti er að sjálfsögðu einnig hægt að taka inn B-12 töflur.

 

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.

 

Deila
Fyrri greinHáþrýstingur
Næsta greinBlóðnasir