Inósítól

Þrátt fyrir að menn hafi uppgötvað inósítól árið 1850 fékk það ekki viðurkenningu sem vítamín fyrr en árið 1956. Það telst til B-vítamína og er vatnsleysanlegt. Ekki finnst jafn mikið af neinu fjörefni í líkamanum og inósítóli fyrir utan níasín. Hvernig það vinnur í líkamanum hefur ekki verið rannsakað nákvæmlega. Vitað er að það er í himnu fruma og er mikilvægur þáttur í viðbragði þeirra við áreiti, taugaboðum og stjórnun starfsemi ensíma. Einnig vinnur inósítól með kólíni við niðurbrot og vinnslu fitu og kólesteróls. Inósítól er að finna víða í fæðunni auk þess sem líkaminn virðist geta framleitt það í meltingarfærunum.

Fæðutegundir sem eru auðugar af inósítóli eru sítrus ávextir, grænmeti, hnetur, baunir, hýðishrísgrjón, ölger, mólassi og hveitikím. Einnig er það að finna í innmat svo sem hjörtum, lifur og nýrum sérstaklega hjá nautgripum. Einkenni skorts eru lítt þekkt en talið er að skortur á inósítóli geti verið meðvirkandi valdur að exemi og hárlosi. Inósítól hefur góð áhrif á hár og húð. Sýklalyf, áfengi, getnaðarvarnarlyf, kaffi og allir kóladrykkir eru gagnvirk inósítóli.

Gerðar hafa verið fjölmargar rannsóknir sem benda til að inósítól hjálpi til við að brjóta niður uppsafnaða fitu og gæti þess vegna hjálpað einstaklingum sem þjást vegna of hárrar blóðfitu. Einnig eru tilgátur um að það verki gegn einkennum tengdum geðheilsu manna svo sem kvíða, svefnleysi og geðklofa. Í blaðinu American Journal of Psychiatry er sagt frá rannsókn sem gerð var í Ísrael með inósítóli. Þar kom í ljós að inósítól getur haft góð áhrif á þunglyndi, kvíða og þráhyggjuáráttu.

Dagsþörf inósítóls hefur ekki verið fundin. Það er hinsvegar ljóst að líkamin þarfnast þess og sumir fá ekki nógu mikið af því. Ekki er ráðlegt að taka inósítól eitt sér þar sem það er samvirkt með öðrum B-vítamínum. Það er því að finna í mörgum B-hóps töflum oft í svipuðu magni og kólín.

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.