C vítamín

C-vítamín eða askorbínsýra eins og það heitir á fræðimáli, er vatnsleysanlegt. Menn, apar og naggrísir eru einu skepnurnar sem ekki geta myndað sitt eigið C-vítamín og verða þess vegna að treysta á að nægilegt magn sé af því í fæðunni. Ýmislegt bendir til að þörf mannsins fyrir C-vítamín hafi aukist samhliða aukinni iðnþróun og hinum neikvæða fylgifiski hennar, þ.e. mengun. Hlutverk C-vítamíns til viðhalds heilbrigði líkamans er margþætt. Það hefur mikilvægu hlutverki að gegna við myndun bandvefs, er stór þáttur í vexti og heilbrigði æða, beina, góms og tanna ásamt því að auka frásog járns. C-vítamín hjálpar sárum að gróa og eykur viðnám líkamans gegn sýkingum. Líkaminn þarfnast aukins C-vítamíns þegar hann er undir andlegu eða líkamlegu álagi. C-vítamín er sindurvari (andoxunarefni) þ. e. ver frumur líkamans gegn skaðlegum áhrifum stakeinda, en það eru úrfellingarefni sem verða til við efnaskipti í líkamanum.

Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar á C-vítamíni og áhrifum þess á mannslíkamann.  Fjöldi rannsókna benda til þess að inntaka C-vítamíns geti hugsanlega dregið úr hættu á sumum tegundum krabbameins, hjarta- og æðasjúkdómum, háþrýstingi og fituúrfellingu æðaveggja. Þær benda einnig til að C-vítamín geti verndað húðina gegn skaðlegum áhrifum útfjólublárra geisla A og B og verji hana þar með gegn ótímabærri öldrun og hrukkum. Rannsóknir hafa sýnt að bæði reykingar og áfengisneysla auka þörf á C-vítamíni stórlega. Ljóst er að ráðlagður dagsskammtur er umtalsvert lægri en margir fræðimenn telja að hann eigi að vera, sumir þeirra segja allt að 60 – 100 falt lægri en hin raunverulega þörf líkamans sé.

Fæðutegundir sem eru auðugar af C-vítamíni eru fyrst og fremst ferskir ávextir og grænmeti. Má þar nefna sítrusávexti, kiwi, ber eins og sólber, jarðarber og rifsber, papriku, kartöflur, hvítkál, tómata, blómkál, grænt laufmikið grænmeti og brokkóli. Reykingar, áfengi, súrefni, birta, hiti, suða og vatn eru gagnvirk C-vítamíni.

Þekktasta skortseinkenni C-vítamíns er skyrbjúgur. Önnur einkenni eru minnkuð móstaða gegn smiti, þreyta, mæði, meltingartruflanir, sárir og bólgnir liðir, hægfara bati á sárum, vöðvaslen, blóðnasir, tannlos, tannskemmdir, bólginn og aumur gómur, blóðleysi, stökkar háræðar og ótímabær öldrunareinkenni svo eitthvað sé nefnt.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að 6 mánaða aldri: 30 mg
  • hálfs árs til eins árs: 35 mg
  • 1-3 ára: 40 mg
  • 4-10 ára: 45 mg
  • karlar frá 10 ára aldri: 60 mg
  • konur frá 10 ára aldri: 60 mg
  • þungaðar konur: 70 mg
  • konur með barn á brjósti: 90 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.