B-3 vítamín / níasín

Vítamín B-3, einnig þekkt sem níasín er vatnsleysanlegt eins og önnur B-vítamín og er raunverulega samheiti yfir 2 efnasambönd, nikótínamíð og nikótínsýru. Þrátt fyrir nöfnin eiga þessi efni ekkert skylt við nikótin í tóbaki. B-3 er nauðsynlegt til að vinna orku úr kolvetnum, fitu og prótíni, einnig mikilvægt við efnaskipti prótína, fitu og ákveðinna sykrunga við kjarnasýrumyndun.

 

Þekktast var B-3 fyrir að lækna húðangur (pellagra), sem orsakast beinlínis af skorti þessa vítamíns. Staðfest hefur verið að stórir skammtar af B-3 lækki kólesteról en auki magn HDL kólesteróls (góðs kólesteróls) og séu þannig vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Skortur þessa vítamíns er algengur hjá áfengissjúklingum.

Auðugustu uppsprettur vítamíns B-3 eru ölger, magurt kjöt, fiskur og kjúklingur, einnig lifur, hveitikím, hrísgrjónahýði, sólblómafræ og jarðhnetur. Líkaminn getur unnið níasín úr amínósýrunni tryptofan, en til þess þarf nægilegt magn vítamína B-1, B-2 og B-6 að vera til staðar. Líkaminn geymir það ekki frekar en önnur vatnsleysanleg vítamín og er regluleg inntaka í fæðunni því nauðsynleg. Önnur B-vítamín, C-vítamín og fosfór stuðla að frásogi níasíns, en kaffi, áfengi, sykur og sterkja draga úr frásogi þess. Níasín þolir hita, ljós, sýru og basa og rýrnar því lítið við suðu eða aðra fæðuvinnslu.

 

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að hálfs árs aldri: 5 mg
  • ungbörn að eins árs aldri: 6 mg
  • 1-3 ára: 9 mg
  • 4-6 ára: 11 mg
  • 7-10 ára: 13 mg
  • karlar 11 ára og eldri: 16-19 mg
  • konur 11 ára og eldri: 13-15 mg
  • þungaðar konur: 17 mg
  • konur með barn á brjósti 20 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.