B-2 vítamín / ríbóflavín

Ríbóflavín er einkennt sem vítamín B-2. Það er vatnsleysanlegt eins og önnur B-vítamín og sterkgult á litinn. B-2 er nauðsynlegt fyrir frumuöndun, efnaskipti fitu, kolvetna og prótína. Einnig fyrir starfsemi húðar, slímhimna og augna. Það ver augun fyrir útfjólubláum geislum og tekur þátt í að stjórna ljósmagni til augans.

Auðugustu uppsprettur vítamíns B-2 eru ölger, hveitikím, mjólkurvörur, lifur, heilt korn, möndlur, sólblómafræ og grænt grænmeti. Líkaminn geymir það ekki frekar en önnur vatnsleysanleg vítamín og er regluleg inntaka í fæðunni því nauðsynleg. Ríbóflavín þolir hita og tapast því ekki við suðu.

Einkenni um skort eru m. a. sjóntruflanir, blóðhlaupin augu og ofþreyta. Einnig getur skortur valdið því að sprungur myndast á vörum, hárið verður feitt og líflaust, hætta er á exemi og neglur vilja springa. Aukaverkanir eru afar fátíðar þar sem B-2 er vatnsleysanlegt og umfram magn skilst auðveldlega úr líkamanum, jafnvel þó að mjög stórir skammtar séu notaðir í lengri tíma.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn að hálfs árs aldri: 0,4 mg
  • hálfs árs til eins árs: 0,5 mg
  • 1-3 ára: 0,8 mg
  • 4-6 ára: 1 mg
  • 7-10 ára: 1,1 mg
  • karlar 11 ára og eldri: 1,4 – 1,6 mg
  • konur 11 ára og eldri: 1,2-1,3 mg
  • þungaðar konur: 1,6 mg
  • konur með barn á brjósti 1,7 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.