Kalk / e: Calcium

Kalk, öðru nafni kalsíum er það steinefni sem mest er af í líkamanum. Það er um 1,5 til 2% af líkamsþyngd, þar af 99% í beinum. Kalk er nauðsynlegt fyrir vöxt og viðhald beina og tanna. Það er mikilvægt fyrir myndun ensíma í líkamanum. Samdráttur vöðva, sending rafboða, stjórnun hjartsláttar og storknun blóðs þarfnast kalks. Rannsóknir benda til að kalk lækki blóðþrýsting, minnki blóðfitu og dragi úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Kalk eykur gæði svefns ef það er tekið að kvöldi og er einnig gott við tíðaspennu.

Skortur á kalki er því miður algengur og fer vaxandi sér í lagi hjá konum og eldra fólki. Alvarlegustu einkenni kalkskorts er beinþynning (beingisnun). Í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa menn áhyggjur af beinþynningu og er jafnvel talað um faraldur. Kostnaður vegna beinbrota í Bretlandi sem rekja má til beinþynningar er áætlaður 88 milljarðar íslenskar krónur á ári. Bandaríkjamenn áætla að samsvarandi kostnaður þar í landi sé um 730 milljarðar íslenskra króna á ári og muni sú upphæð þrefaldast á næstu 25 árum vegna almenns langlífis. Því væri hægt að spara stórlega í heilbrigðisgeiranum með fræðslu um mikilvægi aukinnar kalkneyslu.

Kalk er helst að finna í flestum tegundum hrás grænmetis, sérstaklega í dökkgrænu grænmeti, sesamfræjum, sólblómafræjum, höfrum, hirsi, sojabaunum og sojaafurðum, einnig sardínum, laxi, þara, hnetum og þurrkuðum baunum. Þekktasta uppspretta kalks og sú vinsælasta er mjólk og mjólkurvörur. Hámarksupptaka kalks fæst sé þess neytt samhliða D-vítamíni, ómega-3 fitusýrum (EPA) sem er til dæmis í lýsi og ómega-6 fitusýrum (GLA), sem er að finna í náttljósarolíu.

Kalktöflur fást í margskonar formi og er kalsíum karbonat sennilega eitt algengasta form kalks. Hins vegar er kalsíum sítrat sennilega betra kalk, því rannsóknir sem framkvæmdar voru við UK Southwestern Medical Center í Dallas í Texas sýna ótvírætt að kalsíum sítrat frásogast mun betur í líkamanum en kalsíum karbonat og nýtist því mun betur til að fyrirbyggja beinþynningu.

Í fyrstu greiningunni fór Dr. Khashayar Sakhaee sem er sérfræðinur í efnaskiptum steinefna, í gegnum 15 tilraunir þar sem nýting kalks til að fyrirbyggja beinþynningu var rannsökuð. Í annarri rannsókninni athugaði Dr. Howard Heller, aðstoðarprofessor við (Internal Medicine) ásamt aðstoðarfólki frásog þessara tveggja bætiefna. Í stað þess að mæla hve mikið kalk skilaðist út með þvagi var athugað hve mikið kalk mældist í blóði eftir neyslu þessara efna, bæði stíganda í nýtingu og hvaða hámarki það náði. Þriðja rannsóknin sem Dr. Sakhaee stóð fyrir ásamt samstarfsfólki, bar saman áhrif kalsíum sítrats og lyfleysu til að fyrirbyggja beinþynningu í konum strax eftir breytingarskeið (early post menopausal).

Allar 3 rannsóknirnar bentu til yfirburða kalsíum sítrats. Niðurstaða fyrstu greiningarinnar var að kalsíum sítrat frásogaðist 22-27 % betur en kalsíum karbonat.

Niðurstaða rannsóknar Dr. Hellers var að kalsíum sítrat nýttist betur en karbonatið, bæði var frásogið
hraðara og meira magn nýttist. „Niðurstöður okkar sýna að jafnvel við hin ákjósanlegustu skilyrði frásogast kalsíum karbonat ekki nærri eins vel og kalsíum sítrat, við erum undrandi á hve munurinn er mikill í frásogi – þar sem sítratið frásogast tvisvar og hálfu sinnum betur en karbonatið.“ Þriðja rannsóknin sýndi stóran mun á konum sem tóku 800 mg af kalki í formi kalsíum sítrats daglega í 2 ár, samanborið við annan hóp kvenna sem fengu lyfleysu á sama tíma. Mæld var beinþéttni í hrygg, framhandlegg og efri hluta lærleggs. Þær sem fengu kalsíum sítratið afstýrðu beinþynningu, en þeim sem fengu lyfleysuna fór verulega aftur í þéttni beina í framhandlegg og hrygg á þessu 2ja ára tímabili. (Amercan Journal of Thereapeutics, Nov-Dec 99; Journal of Clinical Pharmacology Nov 99).

Skortseinkenni á kalki auk beinþynningar eru beinkröm, beinmeira, minnkuð kyngeta, tanngníst, stökkar neglur, exem, hækkað kólesteról, háþrýstingur, svefnleysi, vöðvakrampar, taugaveiklun, almennur slappleiki, tannskemmdir, dofi í útlimum, þunglyndi og ofvirkni.

Konur á meðgöngutíma og konur með barn á brjósti þurfa sérstaklega á kalki að halda. Kalk og járn eru þau steinefni sem konur helst skortir.

Áfengi, kaffi, sjoppufæði, mikið salt, mikið hvítt hveiti og mikil fita eru gagnvirk kalki. Einnig fæðutegundir sem
innihalda oxalsýru svo sem rabarbari, kakó og spínat.

Ráðlagðir dagsskammtar eru:

  • ungbörn 0-6 mánaða: 360 mg
  • 6-12 mánaða: 540 mg
  • börn 1-10 ára: 800 mg
  • karlar 11-18 ára: 1200 mg
  • karlar eldri en 18 ára: 800 mg
  • konur 11-18 ára: 1200 mg
  • konur eldri en 18 ára: 800 mg
  • þungaðar konur: 1200 mg
  • konur með barn á brjósti 1200 mg

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.